- Advertisement -

Teikna upp hryllingsmyndir

Gunnar Smári skrifar:

Þetta er þrjátíu og fimm ára gömul forsíðufrétt úr DV og vísar því beint inn í okkar tíma. Þessi spá gekk ekki eftir. Íslendingar eru ekki 275 þúsund í dag heldur 370 þúsund, hefur fjölgað um 128 þúsund síðan 1986 en ekki um 33 þúsund eins og Hagstofan spáði. Þetta er skekkja upp næstum fjórfaldan mun, spáin var gagalagú.

Hagstofan klikkaði mest á fjölgun útlendingar. Í lok fréttarinnar er vitnað til sérfræðinga Hagstofunnar sem segja að áfram muni fleiri flytja frá landinu en til þess, en frá 1968 til 1985 höfðu 380 fleiri flutt brott en fluttu til landsins og sérfræðingarnir reiknuðu með að þessi tala myndi haldast í um 300 næstu áratugina. Reyndin varð að um 1150 fleiri fluttu til landsins á hverju ári að meðaltali þessi 35 ár (1.890 að meðaltali á ári eftir aldamót). Hagstofan gerði sem sagt ráð fyrir halla í brottfluttum/aðfluttum upp á 10.500 en reyndin var ris upp á um 40.500; mismunurinn er 51.000 manns. Það skýrir rúman helming af skekkjunni.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Teiknaðar voru upp hryllingsmyndir…

Hinn hlutann má rekja til spá um fæðingar. Sérfræðingarnir spáðu að árlegar fæðingar yrðu um 3.000 um 2020 en reyndin varð 4.500, skekkja upp á þriðjung.

En ástæðan fyrir því að ég rifja þetta upp er að svona spár voru notaðar til að sanna að samfélagið gæti ekki staðið undir velferðarkerfi sömu tegundar og byggt var upp á eftirstríðsárunum, fjölgun aldraða sem hlutfall af fólki á vinnualdri myndi brjóta kerfið niður. Teiknaðar voru upp hryllingsmyndir þar sem örfáir á vinnualdri þyrftu að standa undir umönnun mikils fjölda aldraða.

Og þetta tal er að magnast upp að nýju, ekki síst meðal forystufólks ríkisstjórnarinnar, og er notað til að slá á kröfur um almennilegar aðgerðir til að sinna málefnum aldraða af myndugleika.

Þegar spáin var gerð var fólk á vinnualdri um 62% mannfjöldans en þetta hlutfall var í fyrra 66%. Staðan hefur batnað en ekki versnað á liðinum 35 árum. Grundvöllur samdráttar í opinberri þjónustu, um að við eigum ekki efni á góðu velferðarkerfi vegna öldrunar þjóðarinnar, reyndist rangur. Og hann er jafn rangur í dag. Þótt það sé dýrara að þjóna fólki eftir því sem verður eldra vegur á móti að fólk á vinnualdri flytur til landsins að vinna störfin sem þarf til að standa undir slíku. Í stað þess að berja niður velferðarkerfið væri skynsamlegri leið að byggja upp framleiðslu og fjölga störfum til að standa undir glæsilegu velferðarkerfi, eins og eldra fólkið á skilið. Fjölgun innflytjenda er lykillinn að góðu velferðarkerfi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: