- Advertisement -

Tapar þingmönnum en ekki fylgi

Fréttaskýring eftir Gunnar Smára:

Þrátt fyrir að hafa tapað öllum atkvæðagreiðslum í þinginu er Boris Johnson ekki að tapa fylgi, þvert á móti. Þótt hann hafi rekið þá þingmenn úr flokknum sem ekki hlýða honum og aðrir hafi hætt, meira að segja bróðir hans og aðrir ráðherrar, þótt hrykkti í flokknum vegna innanhússátak, þá dregur það ekki úr fylginu. Boris er að takast að draga upp þá mynd að hann, yfirstéttardrengurinn, sé fulltrúi fólksins gegn valdastéttinni. Og að gera Jeremy Corbyn, mann sem barist hefur gegn yfirstéttinni allan sinn stjórnmálaferil, að táknmynd valdaelítunnar sem aldrei fer að að vilja almennings heldur lætur aðra hagsmuni stjórna. Getur þetta gengið? Tja, úr því að Donald Trump, silfurskeiðung og yfirstéttarhrotta með langa sögu af yfirgangi gagnvart þeim sem veikar standa, hvers vegna ætti Boris ekki að takast það? Það er veðmálið sem Boris og Dominic Cummings leggja allt undir; að umbreyta Íhaldsflokknum í Brexit-flokk til að sameina alla þá kjósendur sem vilja úr Evrópusambandinu að baki Íhaldsflokki Boris á meðan Evrópusinna kjósendur dreifast um allar koppagrundir og munu síst hallast að Verkamannaflokknum, sem er eini flokkurinn sem í raun getur ógnað Boris.

Boris hefur varpað hófstilltari armi síns flokks á dyr.

Og eins og staðan er núna er þetta að takast hjá þeim félögum. Eins og í ljós kom í kosningabaráttu Donald Trump er það kostur, ekki galli, að fá flokkseigendafélagið, íhaldsmenn af gamla skólanum, fjölmiðlaumfjöllun og stofnanir samfélagsins á móti sér. Trump kallaði hina margrómuðu stríðshetju John McCain heigul til að aðgreina sig frá hófstilltari armi Repúblikanaflokksins og komst upp með það. Boris hefur varpað hófstilltari armi síns flokks á dyr og ef flokkselítan sjálf gerir ekki uppreisn þá mun hann komast upp með það. Hófstilltari armar íhaldsflokksins eða Repúblikanaflokksins eiga enga inneign hjá kjósendum, njóta einskis fylgis. Áhrif þessa fólks byggði á að því að það hafði völd innan flokkanna. Þegar það missir völdin skiptir það engu máli í stjórnmálum. Það eru ár og aldir síðan að stefna þess og áherslur misstu hljómgrunn meðal kjósenda.

En Boris, hefur stefna hans hljómgrunn meðal kjósenda? Í fyrsta lagi hefur hann enga stefnu, ekki frekar en Trump, aðra en þá sem dugar honum til að komast til valda og leiðin þangað er ekki svo mikið í gegnum stefnumál, heldur að stilla sér upp sem mótvægi við stjórnmálaelítuna sem kjósendur hafa fengið fullkomna andstyggð á. Og þá skiptir ekki svo miklu máli hvað þú segir heldur hvernig þú segir það en þó fyrst og fremst hvernig valdastofnanir samfélagsins bregðast við því sem þú segir. Ef þær rísa upp og fordæma þig ertu svo gott sem er búinn að vinna. Slík er andstyggð kjósenda á stjórnmálaelítunni og valdastéttunum.

Gunnar Smári skrifar:
Viðreisn væri orðin stærri en Sjálfstæðisflokkurinn ef þessi hugmynd þvældist ekki fyrir.

Og þetta vantraust kjósenda gagnvart valdastéttinni spilar á tvennan hátt fyrir Boris. Í fyrsta lagi er afstaða hans gagnvart Brexit líklegri til að fylkja þeim sem fyrirlíta valdastéttina að baki honum. Þeir sem vilja Brexit eru ekki bara á móti innlendri stjórnmálastétt og valdakerfi heldur því evrópska líka. Þeir sem ætla að róa á mið óþols kjósenda gagnvart stjórnmálastéttinni geta illa haldið því fram að innlend stjórnmálastétt sé vond en evrópsk góð. Samfylkingin reyndi það hér heima og var við það að eyða sjálfri sér. Viðreisn væri orðin stærri en Sjálfstæðisflokkurinn ef þessi hugmynd þvældist ekki fyrir. Boris er því í miklu betra færi á að höfða til óþols kjósenda gagnvart stjórnmálaelítunni en Frjálslyndir demókratar/Græningjar sem verða að halda ræður um ágæti stjórnmálaelítu Evrópusambandsins (það er munur að þurfa að verja það sem óbreytt ástand eða þurfa að verja það sem valkost) eða Verkamannaflokkurinn, sem er enn að reyna að bjóða upp á stéttastjórnmál þegar stjórnmálið hverfast um 1. Brexit og 2. óþol fólks gagnvart stjórnmálaelítunni. Það er ekki víst að Verkamannaflokkurinn komist á dagskrá við þessar aðstæður.

Vantraust kjósenda gagnvart elítunni spilar á annan hátt fyrir Boris. Eftir því sem Brexit-gambíturinn herðist því meira áberandi verður vantrú á stjórnmálaelítunni meðal þeirra sem vilja halda í Evrópusambandið. Í upphafi var Brexit farvegur þeirra sem vildu gera uppreisn gegn valdinu. En eftir því sem á líður hefur trú Evrópusinna á stjórnmálunum minnkað. Þótt ótrúlegt sé; að þau sem vilja óbreytt ástand missi trú á valdastéttunum. En eftir því sem líkurnar á no-deal-brexit hafa vaxið því andsnúnari hafa Evrópusinnar orðið stofnanastjórnmálunum. Er hægt að treysta stjórnmálum sem að því er virðist af ástæðulausu setur brexit á dagskrá og síðan af fullkomnu getuleysi leiðir það mál að verstu mögulegu niðurstöðu?

Staðan er þá orðin sú að fólkið sem var áður í mestri andstöðu við stjórnmálin hefur fundið sér von í Boris, að hann endurskapi stjórnmál sem taki nótis af vilja almennings. En hin, sem áður lögðu trú á að stjórnmálin myndu verja þau fyrir glundroða, hafa nú enga trú á þeim; eiga sér engan flokk og enga málsvara, finna sér helst farveg í skapandi stjórnmálum götunnar.

Þá er hætt við að fyrirbrigði á borð við Boris og Trump muni leiða okkur inn í hálf- eða algeran fasisma.

Þannig getur það þróast að Boris Johnson takist að spila á áhrifamesta atriði vestrænna stjórnmála í dag, svik stjónmálaelítunnar við almenning (sambandsleysi, samráðsleysi, yfirgangur, blind þjónkun við auðvaldið o.s.frv.). Og eins og með Trump, er það hans eina markmið. Hann er til í að henda peningum í skóla og heilbrigðiskerfi, draga úr niðurskurði ríkisútgjalda og snúa af braut þeirrar stefnu sem Íhaldsflokkurinn hefur fylgt síðustu fjörutíu árin; hvað sem er til að ná völdum. Hvað hann ætlar svo að gera við þau má Guð vita; líklega ekkert annað en að halda þeim sem lengst. Sem í vestrænum samfélögum merkir að gera eins og auðvaldið helst vill, eins og sannast hefur á Donald Trump.

Fullkomin vantrú kjósenda á stjórnmálunum eins og þau komu undan nýfrjálshyggjuvetri virðist því aðeins ætla að færa okkur lukkuriddara á borð við Boris og Trump. Á meðan vinstrið afneitar algjörum trúnaðarbresti milli kjósenda og stjórnmálaelítunnar, afneitar meira að segja hugtakinu elíta, eins galið og það nú er; þá er engin leið til þess að við náum að endurskapa stjórnmálin út frá raunverulegum hagsmunum þeirra sem hafa mátt þola mesta óréttlætið undir samfélagssáttmála nýfrjálshyggjunnar. Á meðan stofnanavinstrið vill fremur verja eigin stöðu en berjast fyrir hagsmunum almennings gegn auðvaldi og elítum, þá er hætt við að fyrirbrigði á borð við Boris og Trump muni leiða okkur inn í hálf- eða algeran fasisma þar sem þær stofnanir sem ætlað var að verja almenning gegn ofurvaldi auðvaldsins verða brotnar niður og þar með vald almennings gagnvart öðru en kjósa reglulega hvaða fáviti verði í forsvari fyrir hagsmuni auðvaldsins næstu fjögur árin.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: