- Advertisement -

Tapa á því að sigra?

Gunnar Smári Egilsson.

Leikur Belga og Englendinga í kvöld verður undarlegur. Það lið sem vinnur mun fara inn í þann legg sem liggur að úrslitaleiknum þar sem fyrir eru Uruguay, Portúgal, Frakkland, Argentína, Brasilía, Mexíkó og mögulega Senegal en liðið sem tapar fer í legg þar sem fyrir eru Spánn, Rússland, Króatía, Danmörk, Svíþjóð, Sviss og líklega Kólumbía. Munurinn á þessum hópum er töluverður. Samanlögð FIFA-stig hópsins sem sigurvegarinn í kvöld fær eru 8449 en liðin á leið taparans 6644. Sigurvegarinn fær því leið sem er 27% erfiðari í FIFA-stigum. Munurinn er meiri ef við metum árangur á liðnum HM-mótum. Með því að búa til vísitölu árangurs (þátttaka á lokamóti, stig, markatala og lokastaða þar sem nýliðin mót vega þyngra en gömul) er munurinn miklu meiri. Sigurvegarinn í kvöld fær 95% betri HM-þjóðir á sinni leið að úrslitaleiknum. Og ef við miðum við markaðsvirði leikmanna þá þarf sigurvegarinn að keppa við lið sem kosta um 567 milljarða króna samanlagt en taparinn fær lið sem kosta 300 milljarða. Munurinn er 89%. Það er því ljóst að bæði liðin tapa á því að vinna, það mætti jafnvel spá 16-15 þar sem öll mörkin eru sjálfsmörk. En á móti kemur að það borgar sig aldrei að tapa í fótbolta, lið styrkjast af sigrum en koðna niður af töpum. En það er hætt við að leikurinn verði undarlegur, snúist um eitthvað allt annað en það sem venjulegur fótboltaleikur á að gera.

Eins og staðan er núna eru liðin með jafn mörg stig og sömu markatölu: 8:2 (sem verður að teljast undarleg tilviljun í meira lagi). Ef leikurinn í kvöld endar í jafntefli þá verða spjöldin talin. Fyrir leik er Belgía með 4 gul spjöld og Englendingar með 2. Belgar munu því fá léttari legginn eftir jafntefli nema Englendingar taki upp á því að brjóta af sér til að safna spjöldum. Við gætum því ekki bara fengið met fjölda sjálfsmarka heldur líka ótrúlegan fjölda af heimskulegum brotum.

-gse


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: