Guðmundur Steingrímsson, alþingismaður og formaður Bjatrar framtíðar, spurði á Alþingi í gær: „Talaði hann gegn betri vitund í kosningabaráttunni?“
Og átti hér orðastað við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Guðmundur vitnaði til greinar sem Sigmundur Davíð skrifaði fyrir kosningar. En þar sagði meðal annars
„Nú hafa flestir málsmetandi menn fallist á að það sé bæði framkvæmanlegt og nauðsynlegt að uppgjöri snjóhengjunnar, og þar með talið gömlu bankanna, ljúki með verulegri eftirgjöf kröfuhafanna og efnahagslegu svigrúmi fyrir Ísland. Menn hafa líka fallist á að hægt sé að ná þessari niðurstöðu hratt með skattlagningu ef samningaleiðin dugar ekki til.“
Og Guðmundur tók fleiri dæmi af orðum Sigmundar:
„Hópurinn sem stendur að vefsíðunni snjohengjan.is bendir á að eðlilegt svigrúm nemi þegar allt er talið um 800 milljörðum. Það er miklu meira en þarf til að leiðrétta stöðu heimilanna. Samhliða því er hægt að bæta stöðu ríkissjóðs og endurreisa velferðarkerfið.“
Og hann nefndi einnig að í þættinum Forystusætið sem var á RÚV fyrir kosningar var Sigmundur spurður af fréttamanni:
Getur þú ábyrgst að það fáist um 300 milljarðar á næstu fjórum árum út úr samningaviðræðum við kröfuhafa föllnu bankanna?
Hæstv. forsætisráðherra svaraði, með leyfi forseta:
„Ástæðan fyrir því að við treystum okkur til þess að tala svona skýrt í þessu máli er að það er alveg ljóst að þetta svigrúm verður að myndast.“
Guðmundur sagði: „Ég skildi þetta fyrir mitt leyti aldrei almennilega. Við í Bjartri framtíð sögðum að okkur þætti þetta mjög óútfært. Ég hef síðan spurt hæstv. forsætisráðherra hér í þessum sal hvernig þessar samningaviðræður gangi og hef fengið þau svör að það sé mjög óskynsamlegt að fara í svona samningaviðræður við kröfuhafana. Gott og vel, þau svör hafa verið alveg skýr, en þá langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra:
Talaði hann gegn betri vitund í kosningabaráttunni?
Sigmundur Davíð svaraði, og byrjaði á að þakka Guðmundir; „…fyrir þessa ágætu upprifjun á því sem ég sagði í aðdraganda kosninga. Það er fyrst og fremst staðfesting á því að ég hafi farið með rétt mál í aðdraganda kosninga í þessu eins og öðru.“
Og hélt áfram: „Jafnframt hefur ríkisstjórnin sem nú situr skattlagt slitabúin sérstaklega, nokkuð sem síðasta ríkisstjórn gerði aldrei. Þar sjá menn fyrir sér skatttekjur vari þetta næstu fjögur árin sem nema yfir 100 milljörðum kr. Það breytir ekki því að áfram munu eiga sér stað viðræður við þá aðila en það er ekki ríkisvaldið sem stendur í þeim viðræðum. Það eru í gangi viðræður, voru að minnsta kosti, um svokallaða nauðasamninga, menn voru að reyna að ná samningum sín á milli, aðilarnir sem eiga beina aðkomu að málinu. Hlutverk ríkisvaldsins í því og stjórnvalda er hins vegar eingöngu að segja til um hvort hugsanleg niðurstaða slíkra viðræðna geri það að verkum að hægt verði að aflétta höftum, þ.e. hvort í þeim viðræðum hafi orðið til þetta svigrúm sem er forsenda þess að hægt verði að aflétta höftunum.
Guðmundur sagði þetta allt annað en sagt var í aðdraganda kosninga. Hann sagðist hafa spurt um orð og efndir. Og sagði Sigmund Davíð hafa verið mjögg brattan í kosningabaráttunni og talað um að svigrúm mundi myndast þegar kröfuhafarnir þyrftu að semja um afslátt af kröfum sínum. „Það var aldrei hægt að skilja það öðruvísi en svo að það þyrfti aðkomu ríkisvaldsins að því einhvern veginn. Talað var um að semja við hrægamma með haglabyssu, svo notað sé líkingamál, og var þá væntanlega átt við höftin. Ég held að almennt hafi fólk skilið þetta þannig. Ekki var talað um 100 milljarða í skattlagningu heldur var talað um nokkur hundruð milljarða sem myndast mundu með slíku svigrúmi. Peningum var veifað framan í fólk í síðustu kosningabaráttu. Ég vil einfaldlega fá það á hreint hvort menn hafi verið að veifa þessum peningum gegn betri vitund, vegna þess að sú ræða sem hæstv. forsætisráðherra flutti hér áðan um að þetta væri flókið og það væri kannski hægt að ná samt 20–100 milljörðum með skattlagningu, var ekki svona í kosningabaráttunni, sú ræða var allt öðruvísi.“
Forsætisráðherra sagði að sér þætti einum of langt gengið ef Guðmundur sé farinn að hafa rangt eftir það sem hann sagði fyrir aðeins tveimur mínútum. „Hann hélt því fram að ég hefði sagt að þetta væri allt flókið og kannski væri hægt að ná einhverju með skattlagningu. Ég sagði það ekki. Þvert á móti sagði ég að nú þegar lægi fyrir að þessi ríkisstjórn væri að skattleggja slitabúin þó að síðasta ríkisstjórn hefði sleppt því en það breytti ekki því að þegar niðurstaða lægi fyrir, niðurstaða sem gerði afléttingu hafta mögulega, þyrfti þetta viðbótarsvigrúm að vera til staðar. Ég hef ekki orðið var við neinn ágreining um það. Menn hafa kannski ólíkar skoðanir á því hversu mikið það svigrúm eigi að vera, hversu mörg hundruð milljarðar, en ef hv. þingmaður heldur því fram að slíkt þurfi ekki, að það sé bara hægt að aflétta höftum án þess að slíkt svigrúm myndist sem hluti af nauðasamningum, er hv. þingmaður að skapa sér mikla sérstöðu í þessum málum.“
-sme
Átján þúsund og fimm hundruð
Á síðustu fjórum vikum lásu 18.500 Miðjuna.