Stjórnmál

Taka „götutré“ fram yfir fólk

By Miðjan

May 04, 2020

Kolbrún Baldursdóttir, Flokki fólksins, er dugleg við gagnrýni á meirihlutann í borginni:

„Í bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. júlí 2019, var óskað eftir heimild til að bjóða út framkvæmdir vegna endurnýjun götutrjáa 2019. Kostnaðaráætlun er 20 m.kr. Nú á að fjarlægja 21 ösp og setja lágvaxnari tegundir sem sagt er að auki „líffræðilega fjölbreytni“. Flokkur fólksins vill benda á að ef breyta á aðeins einu og einu beði eykur það varla „líffræðilega fjölbreytni“, slík hugtök eru notuð á stærri skal,“ bókaði Kolbrún í borgarráði.

„Fulltrúa Flokks fólksins finnst það bagalegt að á meðan tugir sambærilegra verkefna eins og þetta eru nú samþykkt eru ýmsum tillögum um beina aðstoð til fólks synjað  þegar tekjumissir er yfirvofandi. Flokkur fólksins vill að hugað verði að fólkinu frekar en að eyða tugum milljóna í að fella aspir. Hægt er að laga gangstéttir fyrir minna fé. Fólk þarf að vera í fyrsta sæti ekki síst núna.  Þetta er útsvarsfé borgarbúa sem hér er verið að sýsla með og  það er skylda þeirra sem ráða að sjá til þess að borgarbúar allir sem einn fái fullnægjandi aðstoð og þjónustu. Það er hugmyndafræði samneyslunnar. Þegar sú þjónusta er trygg er hægt að fara skoða verkefni eins og þetta.“