Fréttir

Taka 4,5 milljarða af öryrkjum, ekki átta

By Miðjan

June 19, 2019

Ágúst Ólafur Ágústsson skrifar:

Meirihluti fjárlaganefndar var rétt í þessu að kynna tillögur sínar við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Breytingartillögur ríkisstjórnarinnar voru hins vegar kynntar í nefndinni föstudaginn fyrir hvítasunnu. Hraðinn átti að vera mjög mikill og átti að afgreiða málið úr fjárlaganefndinni þriðjudaginn eftir hvítasunnuhelgina, og í raun án nokkurrar umræðu.

Eftir mjög mikla gagnrýni okkar kom talsvert fát á ríkisstjórnarflokkanna og virtist talsverð vinna hefjast á bak við tjöldin við að milda þessar vondu breytingartillögur. Málið dróst og loks litu endanlegar breytingartillögur dagsins ljós í morgun.

Það er ljóst að vinna okkar og Öryrkjabandalagsins og fleiri aðila skilaði heilmiklum árangri á nokkrum dögum. Í stað þess að skera niður frá því sem hafði verið tilkynnt í mars sl. um 43 milljarða kr. á næstu 5 árum („án útgjalda utan ramma“) verður niðurskurðurinn 28 milljarða kr. samanlagt næstu 5 árin.

Mismunurinn eru 15 milljarða kr. minni niðurskurður sem öryrkjar, sjúkrahús, framhaldsskólar, löggæsla, húsnæðisstuðningur ungs fólks og fleiri stoðir velferðarkerfisins njóta góðs af á erfiðum tímum.

Ég ætla að leyfa mér að segja að okkar gagnrýni, ÖBÍ og Þroskahjálpar hafi skipt sköpum hér (sérstaklega í ljósi hraðans sem átti að afgreiða málið) og að við höfum verið á ágætis-tímakaupi undanfarna daga með því að benda á þetta og hamast í þessu.

Hins vegar eru ennþá afar dökk tíðindi í þessum breytingartillögum VG, Framsóknar og Sjálfstæðisfólks á þingi og þau má sjá hér:

1. Lækkun til öryrkja næstu 5 árin samanlagt verður 4,5 milljarður frá því sem hafði verið gert ráð fyrir í upprunanlegri fjármálaáætluninni frá því í mars sl. Þessi lækkun átti að vera 8 milljarðar en við höfum náð að draga úr henni. Engu síður er þetta ótrúlega slæm pólitík að láta samdráttinn í hagkerfinu lenda einna mest á öryrkjum. Þessi tala hefði átt að vera 0 kr.

2. Umhverfismál fá 1 milljarð kr. lækkun í stað 1,4 milljarða og enn eru það skrýtin skilaboð á tímum hamfarahlýnunar.

3. Framhaldsskólarnir fá 1,2 ma kr. niðurskurð í stað 1,8 ma kr. samanlagt næstu 5 árin. Og heildarfjárhæðin til framhaldsskólanna á að enn að standa í stað næstu 5 árin.

4. Sjúkrahúsin fá 2 milljaðar kr. lækkun í stað 4,7 milljarða og heilsugæslan og sérfræðiaðstoð fá 1,5 ma lækkun í stað 2 ma.

5. Þegar kemur að nýsköpun og rannsóknum gerast sérkennilegir hlutir en meirihluti fjárlaganefndar vill auka niðurskurðinn frá því sem hinar vondu breytingartillögur ríkisstjórnarinnar gerðu ráð fyrir. Hér verður lækkunin frá því í mars-áætluninni því 3,2 ma kr. í stað 3 ma. kr. samanlagt á næstu 5 árum.

6. Samgöngumál fá einnig meiri skell en áður eða 3 ma í stað 2,8 ma. kr. Þá fá samgöngumál lækkun á næstu 5 árum um 17%.

7. Málefni aldraða fara einnig aftur á bak hjá nefndinni en það er bætt við 600 m kr. niðurskurð samanlagt næstu 5 árin en breytingartillögur ríkisstjórnarinnar gerðu ekki ráð fyrir slíku.

8. Þróunarsamvinna fær áfram fyrirhugaðan niðurskurð um 1,8 ma kr.

9. Menning og íþróttastarf á enn að fá lægri fjármuni eftir 5 ár en nú er gert ráð fyrir.

10. Húsnæðisstuðningur á enn að fá lægra fé árið 2024 en 2020 þrátt fyrir mikla þörf á þeim markaði og stór loforð í tengslum við kjarasamningana.

11. Hjúkrunarheimili fá 3,3% lækkun næstu 5 árin þrátt fyrir aukna öldrun þjóðarinnar.

Við höldum allavega áfram að berjast fyrir réttlátara samfélagi og gegn því að undirstöður velferðar- og skólakerfisins verði látin taka stærstu höggin vegna slæmrar hagstjórnar ríkisstjórnarflokkanna og versnandi aðstæðna í hagkerfinu.