„Við vitum að tækifæri Íslands eru stórfengleg. Við vitum líka að verkefnin eru ærin og blasa hvarvetna við okkur. En við ætlum að takast á við vandamálin í sameiningu og leysa þau eftir fremsta megni,“ segir í áramótagrein Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra, sem finna má í Mogga dagsins.
„Síðustu ár hafa verið mörgum erfið – svo sem vegna faraldurs, eldsumbrota í Grindavík og síðast en ekki síst vegna stöðu efnahagsmála, verðbólgu og hárra vaxta.
Á sama tíma hefur grafið um sig tilfinning meðal þjóðarinnar um að velferðarkerfið okkar – gersemi og þjóðarstolt þess samfélags sem við höfum byggt hér upp – standi ekki lengur undir eðlilegum og réttmætum væntingum fólksins. Og þetta er ekki aðeins tilfinning heldur blákaldur veruleiki margra, sem ekki verður skýrður á brott með vísun í opinberar hagtölur.
Þó er staða Íslands góð í alþjóðlegu samhengi. Við megum þakka fyrir að búa við frið og velsæld. En það eru viðsjárverðir tímar á alþjóðavísu og því fylgja alvarleg viðfangsefni fyrir stjórnvöld, hérlendis eins og annars staðar.“