„Auk lögbundinna verkefna sýslumanna hafa þeir um árabil veitt opinberum stofnunum þjónustu. Má sem dæmi nefna afgreiðslu fyrir Tryggingastofnun ríkisins og Sjúkratryggingar Íslands og bókhald fyrir sendiráð,“ þetta er hluti svars Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra við fyrirspurn Höllu Sigríðar Kristjánsdóttur Framsóknarflokki.
Halla Sigríður hefur áhyggjur af stöðu sýslumannsembætta á landsbyggðinni.
„Í dómsmálaráðuneytinu hefur verið unnið að því undanfarin misseri að leita leiða við að styrkja rekstur sýslumannsembættanna og tryggja þeim viðunandi rekstrargrundvöll. Ljóst er þó að vandi embættanna verður ekki leystur með því einu að flytja til þeirra verkefni enda er verkefnaálag hjá embættunum almennt þannig að það er ekki forsvaranlegt nema verkefnum fylgi fjármunir,“ segir í svarinu.
Þar segir einnig: „Í aukinni rafrænni stjórnsýslu felast mörg tækifæri fyrir stofnanir hins opinbera sem vel geta leitt til aukinna verkefna sýslumanna. Þjónusta sýslumanna á vegum opinberra stofnana hefur ekki síst byggst á stöðugleika í starfsmannaveltu embættanna. Stofnanir hins opinbera eiga stöðugt að leita leiða til að hagræða. Að mati ráðherra er flutningur verkefna til sýslumanna vel til þess fallinn.“