„Auglýsing hér í Morgunblaðinu frá Sjálfstæðisflokknum fyrir viku gæti bent til þess að flokkurinn ætli að heyja kosningabaráttuna á 50 ára gömlu baráttumáli ungra sjálfstæðismanna um báknið burt. Það er jákvætt enda löngu tímabært en ekki alveg einfalt. Frá því að uppreisnarmenn frjálshyggjunnar komust til valda í flokknum fyrir um fjórum áratugum hefur báknið þanizt út sem aldrei fyrr og Sjálfstæðisflokkurinn átt sinn hlut að því,“ skrifar Styrmir Gunnarsson í Mogga dagsins.
„Til þess að tekið verði mark á þessu markmiði nú þarf vilji til þess að sjást í verki fyrir kosningar. Og þar sem flokkurinn hefur fjármálaráðuneytið í sínum höndum ætti það að vera létt verk.“
Styrmir er ekki hrifinn af umfangi utanríkisráðuneytisins.
„Utanríkisráðuneytið er augljóst fyrsta verkefni. Þar er mesta tildrið og sýndarmennskan og hefur alltaf verið. Utanríkisþjónusta allra landa einkennist af því og þótt hún sé alls staðar hlægileg er hún hlægilegust hjá smáríkjunum. Snemma á þessari öld taldi ráðuneytið að það gæti haft milligöngu um frið milli Ísraela og Palestínumanna. Nú telur það sig geta miðlað málum á milli Bandaríkjamanna og Rússa.
Slíkt ofmat á sjálfu sér kostaði óheyrilegt fé þegar utanríkisráðuneytið ætlaði að kaupa sér sæti með stóru strákunum.
Til að skipta máli í þeim leik þarf fjölmennar þjóðir, mikla fjármuni og öflugan her. Við höfum ekkert af því.
Jafnframt er kominn tími til að fækka sendiráðum bæði á Norðurlöndum og annars staðar. Þau hafa einfaldlega litlum verkefnum að sinna. Eitt sendiráð í Osló dugar fyrir Norðurlöndin öll. Ríkið getur sparað sér kostnað við sendiherrabústaði annars staðar, sem í sumum tilvikum geta kostað um 600 milljónir. Sendiráð í sumum öðrum löndum eru algerlega óþörf.“