Ofneysla á sykri veldur gríðarlegu tjóni.
Árni Gunnarsson skrifar:
Hún er skrautleg umræðan um sykurskattinn. Ýmsir líta á hann sem aðför að frelsi einstaklinga til að velja það, sem í munninn fer. Slíkir láta sig einu skipta þótt Íslendingar borði meiri sykur en aðrar þjóðir, þótt sykurneysla valdi offitu, sykursýki og tannskemmdum. Sumir tala jafnvel um, að ríkið tapi miklum tekjum á minnkandi sykurneyslu. Það hvarflar ekki að þeim, að með minnkandi neyslu á sykri geti sparast stórar fjárhæðir í útgjöldum til heilbrigðismála. Sumir minna á forseta Bandaríkjanna, sem hafnar vísindalegum staðreyndum um breytingar á loftslagi.
Jónas heitinn Kristjánsson, læknir og einn af stofnendum Náttúrulæknifélags Íslands, líkti sykurneyslu við alvarlega fíkn og hafði margt til síns máls. Ýmsir framleiðendur á matvörum vita sem er, að með því að sykra varning sinn, eru sölulíkur meiri. Þannig er Mjólkursamsalan, sem auglýsir grimmt hollustu mjólkurafurða, einn stórtækasti sykurnotandi landsins. Það er fyrirtækinu til skammar.
Allir þekkja sykurmagnið í kók og öðrum gosdrykkjum. Sykri er haldið að börnum og unglingum með sérstökum sælgætisdeildum í stórverslunum. Laugardagsnammið er leiður siður.
Þrátt fyrir þetta vitum við öll, að ofneysla á sykri er alvarlegt heilbrigðisvandamál, sem réttlætir allar aðgerðir, hvort sem er frá einstaklingum, foreldrum, ríkinu eða öðrum til að draga úr neyslunni. Það skortir mikið á aðgerðir yfirvalda í forvörnum á þessum vettvangi. Það kann að vera skynsamlegt, að beita sömu aðferðum og notaðar eru til að takast á við áfengisvandann.
Ofneysla á sykri veldur samfélaginu gríðarlegu tjóni og það er hreinn barnaskapur að taka ekki mark á staðreyndum um alvarleika málsins, sem blasa við okkur á hverjum degi.