- Advertisement -

Svona framkoma viðheldur hræðslu fólks

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir skrifaði:

Maður var handtekinn fyrir að hringja á hjálp fyrir meðvitundarlausan vin sinn og sérsveitin kölluð til „vegna þess að hún var í nágrenninu.“ Ástæðan er að fíkniefni fundust á manninum sem leitaði hjálpar. Svona framkoma viðheldur hræðslu fólks við að hringja eftir hjálp þegar illa fer í vímuefnaneyslu og eykur líkurnar á því að hjálpin berist ekki fyrr en of seint, allt of seint.

Stjórnarmeirihlutinn hafði val um að víkja frá þessari sturluðu stefnu en greiddi atkvæði gegn því á lokaspretti þingsins. Í stað þess að standa með atkvæði sínu og gangast við ábyrgð sinni á áframhaldandi ómannúðlegri og ógeðfelldri refsistefnu gagnvart neytendum er meirihlutinn í afneitun og reynir allt til þess að endurskrifa söguna sér í vil. Til þess nota þau annað hvort rangan eða villandi málflutning um frumvarpið eða flutningsmenn þess, sem ég fer rækilega yfir í þessari grein.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Áslaug Arna og Katrín Jakobsdóttir og meirihluti velferðarnefndar hefðu öll getað…

Sérlega ósmekklegt finnst mér af dómsmálaráðherra og forsætisráðherra að bera það fyrir sig að málið hafi ekki verið borið undir refsiréttarnefnd. Það er óheiðarlegt vegna þess að þær vita vel að þessi nefnd heyrir undir dómsmálaráðherra og hún sinnir aðeins stjórnarmálum nema ráðherra eða meirihlutinn óski sérstaklega eftir því að hún fari yfir þingmannamál. Og það er ósmekklegt því Áslaug Arna og Katrín Jakobsdóttir og meirihluti velferðarnefndar hefðu öll getað beðið um álit refsiréttarnefndar en gerðu það ekki alla þá níu mánuði sem málið var til meðferðar í þinginu en mæta svo á lokasprettinum með þessa aumu og óheiðarlegu afsökun fyrir hjásetu sinni gagnvart stjórnarandstöðunni sem hefur ekki vald til að óska eftir slíku áliti.

Mér misbýður óheiðarleg framsetning á þeirri frábæru vinnu sem Halldóra Mogensen vann á þessu mikilvæga mannréttindamáli. Sögufölsun er aldrei réttlætanleg en sér í lagi ekki þegar nota á hana til að ljúga að réttindalausu fólki um ástæðurnar að baki áframhaldandi vondrar stöðu sinnar í samfélaginu.

Þess vegna skrifaði ég þessa grein, til þess að leiðrétta bullið í þeim.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: