- Advertisement -

Svona erum við rændir alla daga

Skeyti frá óþekk(t)a sjómanninum: Við erum við kolmunnaveiðar við Færeyjar, komnir með um 2500 tonn og erum að fara að landa. Við fáum um 26 kr. á kílóið eða um 65 m.kr. og við áhöfnin rúmar 18 m.kr. Ef við fengjum að landa í Færeyjum, það er ef við þyrftum ekki að selja útgerðinni sjálfri aflann, myndum við 41 kr. á kíló, 102 m.kr. í heild og næstum 30 m.kr. til áhafnarinnar. Svona erum við rændir alla daga. Hvað yrði ég settur í langt fangelsi ef ég myndi stela 12 m.kr. af félögum mínum hér um borð? Ekki bara einu sinni, heldur í hverjum einasta túr? Ef við fengjum að landa á Írlandi fengjum við líklega 46 kr. á kíló, 115 m.kr. alls og 33 m.kr. til okkar í áhöfninni. Og það eru ekki bara við sem erum rændir, þið eruð rænd á sama tíma. Hvað haldið þið að verði um mismuninn á 65 m.kr. og 102 m.kr. (það eru 37 m.kr. í hverjum túr hið minnsta)?

Haldið þið að útgerðin borgi skatt af þessu til íslenska ríkisins eða sveitarfélaga? Nei, þetta hverfur allt í skattaskjól. Þess vegna þurfið þið að borga hærri skatta. Þið gefið ekki útgerðinni bara auðlindina heldur borgið þið skattana hennar líka. Meðan hún rænir sjómennina sem sækja fiskinn. Nóg í bili, heyrumst seinna.

-gse


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: