„Ég stend við sveltistefnukenningu mína og sýnist að ríkið nái að taka yfir flest þau hjúkrunarheimili sem eru í dag rekin af sveitarfélögunum fyrir næstu alþingiskosningar. Við hin ætlum að reyna að þrauka í rúmt ár enn.“
„Ég spyr því þá sem ráða ferðinni: Af hverju er niðurskurður á fjárframlögum til hjúkrunarheimila fjórða árið í röð? Höfum við gert ríkisvaldinu eitthvað til að verðskulda þessa svívirðilegu framkomu? Hafa heimilismenn hjúkrunarheimilanna gert ríkisvaldinu eitthvað til að verðskulda þessa svívirðilegu framkomu? – Mér finnst ráðamenn skulda okkur sem rekum hjúkrunarheimilin svar og ekki síður eiga þeir sem byggðu upp okkar stórkostlega samfélag skilið að fá að vita af hverju fjármagn til reksturs hjúkrunarheimila er sífellt skorið niður. Það er ekki eins og það hafi flætt fjármagn upp úr öllum skúffum áður en þessi ríkisstjórn tók við, engu að síður er enn og aftur skorið niður hjá hjúkrunarheimilum landsins,“ skrifar Gísli Páll Gíslason, formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu í Moggann í dag.
Hann bendir á: „Fjórða árið í röð leggur ríkisstjórn Íslands fram fjárlagafrumvarp þar sem rekstrarframlag til hjúkrunarheimila landsins er skorið niður um hálft prósent. Í lítilli grein sem ég skrifaði um daginn vakti ég athygli á þessu og fékk viðbrögð. Frá nær öllum nema þeim sem bera ábyrgð á fjárlagafrumvarpinu. Eina sem kom fram var að heilbrigðisráðherra neitaði því að tilgangur niðurskurðarins væri að svelta heimilin til þess að fá rekstur þeirra í ríkisfangið. Einhver fréttamaður hefði þá kannski spurt ráðherra: „Af hverju er rekstrarfé til hjúkrunarheimila skorið niður fjórða árið í röð á meðan nær allir aðrir rekstraraðilar heilbrigðisþjónustu, langflestir opinberir, fá verulega raunaukningu framlaga umfram verðlags- og launahækkanir?“ en því miður þurfti ráðherrann ekki að svara.“
Gísli Páll er ósáttur við stjórnarflokkana og hvernig þeir hafa beygt eigin stefnu:
„Það styttist í kosningar og þeir þrír flokkar sem nú mynda ríkisstjórn þurfa ekki að vænta atkvæða okkar sem rekum þessi hjúkrunarheimili, og líklega ekki heldur frá þeim sem þar búa, starfa og eiga aðstandendur. Sjaldan hefur kosningaloforð þeirra þriggja, sem endaði í ríkisstjórnarsáttmála þeirra, verið eins illilega svikið og nú en þar stendur: „Einnig verður hugað að því að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila en áhersla verður einnig lögð á aðra þjónustuþætti, svo sem heimahjúkrun, dagþjálfun og endurhæfingu.“ Þessi ríkisstjórn hefur farið í þveröfuga átt og svikið þetta með miklum bravúr og í raun ekki þurft að svara fyrir það. Bara af því bara, virðist vera viðkvæðið þegar eftir röksemdum er spurt.“
Og að lokum: „Ég stend við sveltistefnukenningu mína og sýnist að ríkið nái að taka yfir flest þau hjúkrunarheimili sem eru í dag rekin af sveitarfélögunum fyrir næstu alþingiskosningar. Við hin ætlum að reyna að þrauka í rúmt ár enn.“