- Advertisement -

SVIKU KOSNINGALOFORÐ UM HÆKKUN LÍFEYRIS VEGNA KJARAGLIÐNUNAR!

Það var því ljóst, að ríkisstjórnin ætlaði að svíkja aldraða um leiðréttingu á lífeyrinum.

Björgvin Guðmundsson skrifar:

Stærsta kosningaloforðið, sem Framsókn og Sjálfstæðisflokkur gáfu öldruðum og öryrkjum í þingkosningum 2013, var að kjaragliðnunin, sem þessir hópar urðu fyrir á krepputímanum, yrði leiðrétt strax kæmust þeir til valda.

 Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar 2013 var eftirfarandi samþykkt: „Ellilífeyrir sé leiðréttur strax til samanburðar við þær hækkanir, sem orðið hafa á lægstu launum síðan í ársbyrjun 2009.“

Svipuð ályktun var samþykkt á flokksþingi Framsóknar. Þar var eftirfarandi samþykkt: „Lífeyrir aldraðra og öryrkja verði hækkaður vegna kjaraskerðingar þeirra (og kjaragliðnunar) á krepputímanum. Með kjaragliðnun er átt við, að lífeyrir aldraðra og öryrkja hefur ekki hækkað samsvarandi og kaup láglaunafólks en tilskilið er í lögum, að svo skuli vera.“

Kjaragliðnunin ekki leiðrétt í fjárlagafrumvarpinu.

Framsókn og Sjálfstæðisflokkur mynduðu ríkisstjórn eftir kosningar 2013. Þess var beðið með nokkurri eftirvæntingu, hvort fjárveiting til leiðréttingar á kjaragliðnun lífeyrisþega yrði í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2014, einkum þar sem formaður Sjálfstæðisflokksins var orðinn fjármálaráðherra og samþykkt landsfundar flokksins um leiðréttingu strax var afdráttarlaus. En það var ekki að finna eina krónu í frumvarpinu til leiðréttingar á umræddri kjaragliðnun. Það var því ljóst, að ríkisstjórnin ætlaði að svíkja aldraða um leiðréttingu á lífeyrinum.

Lífeyrir þurfti að hækka um 20 -30%.

Mat á stöðunni var þetta: Hækka þarf lífeyrinn um 20 -30% til þess að leiðrétta hann vegna kjaragliðnunarinnar. Kaup láglaunafólks hefur hækkað um 40% frá ársbyrjun 2009 en lífeyþeirra, sem búa einir og hafa aðeins tekjur frá TR hefur aðeins hækkað um 17% á sama tíma.

Öryrkjabandalag Íslands telur að hækka þurfi lífeyri öryrkja meira en 20% til þess að leiðrétta að fullu vegna kjaraskerðingar krepputímans. Með því að hækka lífeyri um 20% nú væri aðeins verið að hækka hann í dag, mörgum árum síðar, til samræmis við hækkun, sem láglaunafólk hefur fengið fyrir mörgum árum og mest á fyrri hluta krepputímans. Í því fælist hins vegar engin leiðrétting fyrir liðinn tíma. Sumir frambjóðendur stjórnarflokkanna gáfu mjög róttækar yfirlýsingar um að leiðrétta þyrfti kjör aldraðra og öryrkja til baka.

Landssamband eldri borgara og Félag eldri borgara í Reykjavík ályktaði að leiðrétta yrði lífeyrinn vegna kjaragliðnunnar krepputímans. Þess var krafist, að staðið verði við kosningaloforðið í því efni og að það yrði gert strax eins og lofað var fyrir kosningar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: