- Advertisement -

Sveitarfélögin þurfa útsvar og skatta frá hinum ríku

„Hin ríku og valdamiklu hafa komið sér undan skattgreiðslum á undanförnum árum og áratugum og það hefur grafið undan velferðarkerfunum og rekstri sveitarfélaga. Þótt borgarstjórn Reykjavíkur geti ekki lagt á skatta án laga frá Alþingi, þá ber henni að berjast fyrir endurreisn skattkerfsins og fyrir því að hin ríku borgi skatta,“ segir Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti sósíalista í Reykjavík.

Framboð sósíalista í Reykjavík og Kópavogi leggja áherslu á endurreisn skattkerfisins með það að markmiði að létta sköttum af launafólki en hækkun skatta á fyrirtæki, fjármagnseigendur og hina ríku. Fyrsta markmið er að snúa út úr ógöngum nýfrjálshyggjunnar, að leggja aftur á þá skatta sem stjórnvöld léttu af fyrirtækjum og hinum allra auðugustu.

„Á nýfrjálshyggjuárunum var grafið undan skattkerfinu með niðurfellingu skatta til hinna ríku,“ segir Arnþór Sigurðsson, fyrsti maður á lista sósíalista í Kópavogi. „Þessi eftirgjöf skatta gróf undan velferðarkerfi bæði ríkis og sveitarfélaga. Hendur sveitarfélaga eru bundnar af lögum frá Alþingi, en sveitarstjórnir eiga að berjast fyrir að skattar verði aftur lagðir á hin ríku. Án framlags frá hinum best settu geta sveitarfélögin ekki byggt upp kröftugt og gott samfélag. Venjulegt launafólk getur ekki eitt staðið undir þjónustu sveitarfélagana.“

Á nýfrjálshyggjutímanum var aðstöðugjald fyrirtækja lagt af. Það var veigamikill hluti af tekjustofni sveitarfélagana, var einskonar útsvar fyrirtækjanna. Aðstöðugjaldið skilaði tekjum sem voru hátt í helmingur af útsvari launafólks. Nú greiða fyrirtækin ekkert í sveitasjóð.

Með fjármálavæðingu nýfrjálshyggjutímans urðu tekjur hinna allra auðugustu nær einvörðungu fjármagnstekjur. Og fjármagnstekjur bera ekkert útsvar, öfugt við launatekjur. Tekjuhæsta fólkið í Reykjavík og Kópavogi, margt af auðugasta fólki landsins, greiðir því ekki krónu til sveitarfélagsins sem það býr í.

„Framboð sósíalista í sveitarstjórnarkosningunum er hluti af baráttu hinna verst settu fyrir hagsmunum sínum,“ segir Sanna Magdalena. „Við munum berjast innan verkalýðsfélaga, innan sveitarfélaga, á þingi, í hagsmunasamtökum almennings og hvar sem við teljum nauðsynlegt. Eitt af grunnstefum þessara baráttu er að vinda ofan af eyðileggingu skattkerfisins. Til að endurreisa samfélagið þurfum við að endurreisa skattkerfið og leggja aftur skatta á fyrirtæki og fjármagnseigendur.“

Til að mæta tekjutapi vegna minni skatttekna frá fyrirtækjum og hinum ríku hafa sveitarfélögin meðal annars hækkað fasteignaskatta. Þeir leggjast jafnt á skuldir og eignir og eru því ósanngjörn skattheimta. Sveitarfélögin hafa líka mætt tekjutapinu með því að selja frá sér eignir. Áður var byggingalóðum úthlutað, enda almenn og sameiginleg gæði íbúanna, en á nýfrjálshyggjutímanum var farið að selja lóðir og oftast hæstbjóðandi. Einstaklingar duttu þá út sem byggingaaðilar, gátu ekki keppt við verktakana um lóðirnar. Verktakar veltu síðan lóðaverðinu út í húsnæðisverðið. Og það eru því íbúðakaupendur og leigjendur sem borga lóðaverðið á endanum. Með þessu kerfi er almenningur í raun að greiða niður skattaafsláttinn til fyrirtækja og hinna ríku.

„Það er undarlegt að heyra meirihlutann í borginni fagna góðri afkomu borgarsjóðs, sem fyrst og fremst byggir á aukinni eignasölu,“ segir Sanna Magdalena. „Góður rekstur borgarsjóðs verður að byggja á heilbrigðri skattheimtu og góðum rekstri. Góð afkoma vegna eignasölu í góðæri er í raun ekki góð tíðindi. Í næstu kreppu kapítalismans mun borgarsjóður verða vanmáttugur til að takast á við vanda almennings. Til að styrkja borgina þarf því að styrkja borgarsjóð og það verður ekki gert nema með því að sækja aftur skatta til hinna ríku.“

„Það er rangt sem haldið hefur verið fram að skattlagning fyrirtækja dragi úr getu þeirra til fjárfestingar eða góðs rekstrar,“ segir Arnþór. „Skattlagning fyrirtækja dregur aðeins úr getu eigendanna til að greiða sjálfum sér arð. Áður en kemur að arði verða eigendurnir hins vegar að borga til samfélagsins sem er á alltaf undirstaða rekstrarins.“

„Það gengur heldur ekki að ríkasta fólkið greiði ekkert til sveitarfélagsins þar sem það býr,“ segir Sanna. „Það verður að leggja útsvar á fjármagnstekjur. Stórríkt fólk sem hefur engar launatekjur og aðeins fjármagnstekjur ætti að heimta að fá að borga til sveitarfélagsins eins og aðrir íbúar. Þetta fólk hlýtur að skammast sín að nota alla þjónustu sveitarfélagsins sem fólk borgar fyrir sem eru miklu verr statt. Ef það kann þá að skammast sín.“

 

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: