- Advertisement -

Sveitarfélög fara ekki að lögum

- ekkert eftirlit er með hvort sveitarfélög fari að lögum hvað varðar húsnæðisstuðning. Ráðuneytið segist bregðast við ábendingum.

Reykjanesbæ er ekki að finna á lista þeirra sveitarfélaga sem hafa farið að lögum.

Aðeins tíu sveitafélög hafa sett sér reglur um húsnæðisstuðning einsog þeim ber að gera, samkvæmt lögum. Húsnæðisstuðningur er til dæmis arftaki húsaleigubóta.

Sveitarfélögin eru Reykjavík, Fjarðabyggð, Kópavogur, Hafnarfjörður, Akureyri, Skagaströnd, Mosfellsbær, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur og Blönduós.
Félagsmálaráðuneytið hefur ekkert eftirlit með hvort sveitarfélög fari að lögum um húsnæðisstuðning. Ráðuneytið bregst við fái það ábendingar um að ekki sé allt með felldu.

26 sveitarfélög hafa sett sér sínar eigin reglur um sérstakan húsnæðisstuðning sem birtar eru á heimasíðu þeirra. Þau eru: Garðabær, Seltjarnarnesbær, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður, Sveitarfélagið Vogar, Borgarbyggð, Stykkishólmur, Eyja- og Miklaholtshreppur, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Snæfellsbær, Ísafjarðarbær, Sveitarfélagið Skagafjörður, Norðurþing, Langanesbyggð, Dalvíkurbyggð, Fljótsdalshérað, Ásahreppur, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Mýrdalshreppur, Skaftárhreppur, Vestmannaeyjabær, Sveitarfélagið Ölfus, Árborg og Sveitarfélagið Hornafjörður.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þessar upplýsingar er að finna í svari félagsmálaráðherrans, Þorsteins Víglundssonar vegna fyrirspurnar frá Elsu Láru Arnardóttur Framsóknarflokki.

Breyta viðmiðunum

„Við skoðun á reglum sveitarfélaganna, sem sett hafa reglur um sérstakan húsnæðisstuðning, er ljóst að flest sveitarfélögin þrengja skyldubundið mat með setningu hlutlægra viðmiða í reglur sínar. Þeim er heimilt að þrengja það upp að vissu marki enda setja leiðbeinandi reglur ráðuneytisins einungis fram fjárhæðir, tekju- og eignaviðmið, prósentutölur, stigafjölda og þess háttar til viðmiðunar,“ segir í svarinu.

Í lögunum eru settt fram  markmið sérstaks húsnæðisstuðnings. Þar segir að sérstökum húsnæðisstuðningi sveitarfélaga sé ætlað að lækka greiðslubyrði vegna húsnæðiskostnaðar hjá þeim sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði eða eru með íþyngjandi húsnæðiskostnað sökum lágra tekna eða og lítilla eigna, þungrar framfærslubyrði og félagslegra aðstæðna.

Ekkert heildarmat

„Í reglum einhverra sveitarfélaga er sérstakur húsnæðisstuðningur sagður einungis ætlaður þeim fjölskyldum og einstaklingum sem leigja á almennum markaði og eru ekki á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa og þungrar framfærslubyrðar, en ekki er vikið að þeim sem ekki eru færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna. Samkvæmt þessu fer ekki fram heildarmat á aðstæðum umsækjanda. Með þessu er ekki fylgt markmiði og tilgangi laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. En líkt og fyrr segir þarf ákvörðun um sérstakan húsnæðisstuðning að byggjast á heildarmati á aðstæðum umsækjanda.“

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: