Viðhorf „Það kemur okkur talsvert á óvart að væntingavísitalan hækki ekki meira að þessu sinni þar sem fjölmörg teikn eru um að hagur neytenda fari batnandi, auk þess sem efnahagshorfur eru allgóðar fyrir næstu misserin. Þannig benda tölur af vinnumarkaði til þess að ágætis gangur sé í honum, og virðist staðan þar ekki hafa verið betri síðan fyrir hrun. Jafnframt hefur kaupmáttur launa verið að aukast, og nam árs hækkunartaktur kaupmáttarins 3,5% í júlí síðastliðnum samkvæmt tölum Hagstofunnar,“ segir greiningardeild Íslandsbanka.
Ekki rigningunni að kenna
Þá segir það ríma vel við tölur frá eftirspurnarhlið hagkerfisins á borð við kortaveltu, innflutning neysluvara og veltu í smásöluverslun sem benda til þess að einkaneysluvöxtur muni verða all myndarlegur á árinu. „Í júlí sl. töldum við að lækkun væntingavísitölu frá fyrri mánuði gæti verið að hluta til vegna hversu úrkomusamur og sólarlítill mánuðurinn var um mest allt land. Tíðarfarið hefur verið talsvert skárra nú í ágúst, a.m.k. á Suðvesturhorni landsins, og er því erfitt að heimfæra þá kenningu upp á nýjustu VVG-mælinguna. Við teljum hins vegar að eftir sem áður muni leitni VVG verða upp á við á komandi mánuðum líkt og verið hefur frá miðju síðasta ári.“
Ekki svartsýnni í tíu mánuði
Allar aðrar undirvísitölur hækka í ágúst frá fyrri mánuði. Væntingavísitalan lækkar semsagt um 5 stig og mælist nú 104,4 stig sem er lægsta gildi hennar frá því í nóvember í fyrra. Mest hækkar vísitalan sem mælir mat neytenda á núverandi ástandi (10,8 stig) og mælist hún nú 59,8 stig. Mat á efnahagslífinu hækkar svo um 7 stig og mat á atvinnuástandinu um 3 stig. Mælist fyrrnefnda vísitalan 82,0 stig og sú síðarnefnda 91,2 stig.