Valgerður: Það var frétt um það í vikunni að barn hafi verið gómað við það að stela sér samloku, barnið var svo svangt. Síðan er skálað í ráðhúsinu fyrir pálmatrjám.
Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur margt við rekstur borgarinnar að athuga:
„Nú þegar er byrjað að senda börn heim af leikskólum vegna manneklu. Veikindi starfsfólks gera það að verkum að ekki er hægt að halda starfinu gangandi. Miðlæg afleysingaþjónusta sem sett var á laggirnar til þess að bregðast við í tilfellum eins og þessum nær ekki að að sinna sínu hlutverki og því fer sem fer. Á meðan er skálað í ráðhúsinu fyrir pálmatrjám, einhverjir héldu að þetta væri grín. En nei þessi meirihluti er ekkert að grínast þegar kemur að því að úthluta peningum útsvarsgreiðenda í gæluverkefni. Eins og borgarstjóri segir á fésbókar síðu sinni: „Það verður ekki annað sagt en að sigurverkin eftir Karin Sanders eru óvænt, skemmtileg og býsna djörf, eins og dómnefnd komst að orði“.
Ég hélt að fátt ætti eftir að koma á óvart eða vera óvænt hjá núverandi borgarstjórnarmeirihluta. Ég var svo barnaleg að halda að einhver lærdómur hefði verið dregin af kaupum á strám fyrir yfir 1 milljón króna. Að þar hefði ákveðnum botni verið náð. Það óvænta og djarfa er það að nú er haldið áfram og engin virðingu borin fyrir peningum útsvarsgreiðenda. Þessi djarfi leikur er einskær óvirðing gagnvart Reykvískum skattgreiðendum. Og það sem meira er að þessi leikur er löngu hættur að vera skemmtilegur.
Eins og ég hef svo oft áður bent á í greinum mínum þá er ekki hægt að halda uppi grunnþjónustu skammlaust. Það er skorið við nögl í hverju horni þegar við erum að horfa til rekstrar skóla, leikskóla eða tónlistarskóla.
Það var frétt um það í vikunni að barn hafi verið gómað við það að stela sér samloku, barnið var svo svangt. Síðan er skálað í ráðhúsinu fyrir pálmatrjám, manni er ekki hlátur í huga í dag.“