- Advertisement -

Svandísi skortir öll rök

Þá er líka vert að benda á það sem ég hef áður nefnt að veiðar eru heimilar frá og með deginum í dag en sá hluti reglugerðar sem inniheldur hvað þyngstu skilyrðin fyrir veiðunum tekur ekki gildi fyrr en þann 18. september nk.

Helga Vala Helgadóttir.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, skrifar:

Ég hef enn ekki séð fullnægjandi rök matvælaráðherra fyrir því að heimila hvalveiðar að nýju. Byggi ég það á eftirfarandi rökum:

Þegar ráðherra tekur ákvörðun um að leyfa að nýju hvalveiðar, eftir að hafa tekið ákvörðun um að stöðva þær þar sem veiðiaðferðir voru ekki í samræmi við lög, þurfa rökin fyrir nýju leyfi að styðjast við sömu lög. Það eru fyrir því fjölmörg fordæmi að starfsemi sé stöðvuð vegna ófullnægjandi aðbúnaðar eða vinnuaðferða á vinnustöðum og þá er ekki horft á hvort fólk missi vinnu sína eða ekki. Fara verður að lögum við rekstur fyrirtækja, ekki síst matvælafyrirtækja, og á því ber forstjórinn ábyrgð.

Ráðherra gat þannig ekki á sínum tíma annað en stöðvað upphaf veiðitímabils fyrst það var niðurstaða hennar og ráðuneytis hennar að fyrirtækið sem stundar veiðar hafi ekki gert slíkt í samræmi við lög og reglur. Vissulega þarf að gæta meðalhófs, en þegar niðurstaðan um að veiðar samræmist ekki lögum berst seint, og ekki hefur verið brugðist við ábendingum um að veiðar samræmist ekki reglum og lögum vikum og jafnvel mánuðum saman, þá getur ráðherra ekki annað gert en að stöðva veiðarnar. Á rekstrinum ber forstjórinn ábyrgð.

Þess vegna er það líka alveg skýrt að þegar ráðherra leyfir veiðar að nýju þarf hann (hún) að færa fyrir því rök að bætt hafi verið úr þeim ágöllum sem leiddu til að veiðar voru stöðvaðar. Það þarf að sýna fram á að rekstraraðilinn hafi bætt svo úr að enginn vafi leiki á að framhald veiða verði þá í samræmi við lög. Mér finnst algjörlega skorta á þessi rök í tilkynningu ráðherra í gær, því það verður ekki gert með setningu nýrrar reglugerðar þegar fyrir liggur að ekki var farið eftir fyrri reglum. Það þarf að vera ljóst að bætt hafi verið úr fyrri ágöllum. Ekkert liggur fyrir um að slíkt hafi verið gert.

Þá er líka vert að benda á það sem ég hef áður nefnt að veiðar eru heimilar frá og með deginum í dag en sá hluti reglugerðar sem inniheldur hvað þyngstu skilyrðin fyrir veiðunum tekur ekki gildi fyrr en þann 18. september nk.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: