Halldóra Jónsdóttir og Lára Björgvinsdóttir, sem báðar eru yfirlæknar geðþjónustu Landspítalans, skrifar ótgrúlega grein sem birt er í Fréttablaðinu í dag. Fólki bregður við lesturinn. Svo illa er búið að geðveiku fólki. Engin bót er framundan.
Í greininni segir meðal annars:
„Engin áætlun er til um endurnýjun á húsakosti geðþjónustu Landspítala. Húsakosturinn eins og hann leggur sig hefur ekki fengið viðeigandi viðhald í gegnum tíðina og því fylgir ýmiss konar vandi, til dæmis snjóar inn á sjúklinga og starfsfólk í vetrarveðrum og mygla hefur greinst í sumum húsanna, nokkuð sem seint telst heilsubætandi.“
Halldóra og Lára skrifa líka: „Þjónusta við sjúklinga hefur liðið fyrir þetta ástand. Aðstaðan í húsunum stenst engan veginn nútímakröfur. Deildirnar eru þröngar og hafa fá önnur viðverurými en herbergi sjúklinga. Í dag vitum við að umhverfið hefur mikil áhrif á okkar andlegu líðan. Við vitum líka að hreyfing er mikilvæg fyrir okkur til að viðhalda andlegri heilsu. Við gerum einfaldlega miklu meiri kröfur til húsnæðis sjúkrahúsa í dag en fyrir 40 árum að ekki sé talað um fyrir 100 árum.“
Greinina enda þær svona: „Við förum fram á það við stjórnvöld að skjólstæðingar geðþjónustu Landspítala fái á sínum erfiðustu stundum einnig að njóta umhverfis sem er heilsueflandi og græðandi fyrir sál og líkama eins og aðrir skjólstæðingar spítalans. Að þar sé tækifæri til einkalífs, með persónulegum rýmum sem eru rúmgóð og björt. Að þar sé beint aðgengi í garð frá öllum deildum þar sem inniliggjandi sjúklingar dvelja. Að þar séu bjartar dagstofur og rými fyrir slökun og hreyfingu. Við krefjumst þess að strax verði hafist handa við undirbúning byggingar nýrrar geðdeildar.“