Svandís Svavarsdóttir: „Það er stundum talað um að við séum ekki að stuðla að kerfisbreytingum í þessari ríkisstjórn. Það er rangt. Við erum að bjarga heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og samgöngunum frá langvinnri vanrækslu og ásælni peningaaflanna í landinu. Það er búið að rétta efnahagslífið við eftir hrunið. Eftir standa innviðirnir, margir hverjir vanræktir til langs tíma. Viðfangsefnin eru alls staðar. Þess vegna erum við hér.“
Þetta sagði Svandís í desember í fyrra og í mars sagði hún: „Sú sem hér stendur gegnir embætti heilbrigðisráðherra og mun gegna því í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna og í samræmi við þau orð sem sú sem hér stendur hefur látið falla varðandi fyrst og fremst uppbyggingu opinbera heilbrigðiskerfisins.“
En Svandís, lestu þetta:
„Vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í fæðingarþjónustu á Landspítala og öðrum fæðingarstöðum, í kjölfar uppsagna ljósmæðra og yfirstandandi yfirvinnuverkfalls, hafa stjórnendur Landspítala ákveðið eftirfarandi.
1. Meðgöngu- og sængurlegudeild Landspítala verður nú lokað og verður starfsemi hennar sameinuð kvenlækningadeild 21A föstudaginn 20. júlí.
2. Frá og með mánudeginum 23. júlí falla fyrstu reglubundnu ómskoðanir þungaðra kvenna niður. Ljósmæður sem sinnt hafa þeirri þjónustu munu hverfa til annarra starfa í fæðingarþjónustu. Um er að ræða ómskoðun sem fer yfirleitt fram milli 11. og 14. viku meðgöngu og er í raun fyrsta fósturgreining. Önnur fósturgreining stendur verðandi foreldrum til boða eftir sem áður, ásamt tilfallandi bráðaskoðunum.“
Og þetta er ekki allt. Hjartagáttin er lokuð, neyðarmóttaka á geðdeild er lokuð og margar deildir keyrðar til málamynda.
Ríkisstjórninni hefur mistekist. Þau sem best þekkja til og mest vita forðast í lengstu lög að segja að hættuástand sé vegna stöðunnar, en samt er það svo. Það er hættuástand. Það er engin lausn að fljúga með veikar konur frá Reykjavík til Akureyrar.
Heilbrigðiskerfið sem átti að bjarga er að hrynja.
Svandís, það er að gerast á þinni vakt.
-sme