Oddný Harðardóttir skrifar:
Heilbrigðisráðherra hefur svarað fyrirspurn minni frá því í vor um vanda barna með ADHD. Biðin eftir greiningu er allt of löng. Síðan verður viðeigandi þjónusta að fylgja í kjölfarið.
Biðin er erfið bæði börnum og fjölskyldum þeirra. Varla getur það kostað hönd og fót að koma þessum málum í lag. Eftir hverju er beðið?
Hættan er sú að á meðan biðinni stendur nái neikvæðir fylgikvillar að valda skaða sem erfitt er að vinna á. Og biðin hefur þá vanlíðan og mikinn kostnað í för með sér til lengri tíma.
Það á að setja líðan og velferð barna í forgang en það er ekki alltaf gert eins og þessi svör við spurningum mínum sýna. Ráðherra segist ætla að skoða málið. Það gefur ekki mikla von um betri tíð enda vitum við ekkert hvað það merkir.