„Setupið“ virðist þannig að valdir aðilar eru þreyttir til uppgjafar.
„Það gengur ekki að nota umboðslausa Sjúkratryggingastofnun sem skjöld fyrir ráðuneytið,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson á Alþingi í dag. Hún bætti við:
„„Setupið“ virðist sem sagt þannig að valdir aðilar eru þreyttir til uppgjafar aðilar á borð við hjúkrunarheimilin, sjálfstætt starfandi sérfræðinga, Krabbameinsfélagið, Karitas og SÁÁ.“
Hún var mjög gagnrýnin: „Vinnubrögðin eru þessi: Kröfugerð er unnin ítarlega en þó gjarnan án mikils samráðs við þá sem veita þjónustuna, a.m.k. ef það eru þessir tilteknu aðilar, sjálfseignarstofnanir og sjálfstætt starfandi sérfræðingar, og síðan er slumpað á verðið. Hvorugt er síðan umsemjanlegt.“
Miðpunktur orða hennar var þessi:
„Síðustu mánuði hafa Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, sem m.a. reka velflest hjúkrunarheimili landsins, ítrekað sent frá sér áskoranir þar sem skorað er á heilbrigðisyfirvöld að hefja þegar markvissar og raunhæfar viðræður um þjónustu hjúkrunarheimila. Þá er gerð sú krafa af hálfu þessara aðila að í viðræðunum afmarki stjórnvöld þá þjónustuþætti og þær kröfur sem þau telja unnt að skerða með hliðsjón af þeim fjárveitingum sem veita á til rekstursins. Að auki hafa samtök velferðarþjónustufyrirtækja ítrekað skorað á heilbrigðisyfirvöld að skila þeim eyrnamerktu fjármunum sem hjúkrunarheimilum voru veittir í fjárlögum til að mæta aukinni hjúkrunarþyngd á heimilunum. Þessum 276 millj. kr. halda heilbrigðisyfirvöld enn í sinni vörslu, líklega til að skapa sér sterkari samningsstöðu, þvert á vilja þingsins, vilja sem var skýrt látinn í ljós í atkvæðagreiðslu hér undir lok síðasta árs.“