Fréttir

Svandís, sægreifarnir og smábátasjómennirnir

By Miðjan

January 11, 2022

Svandís Svavarsdóttir sjávarútvegsráðherra er bundin á báðum. Sjá hér að ofan kafla úr stjórnarsáttmálanum.

„Formaður og framkvæmdastjóri LS áttu fjarfund með Svandísi Svavarsdóttur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Helsta tilefni fundarins, fyrir utan að óska ráðherra til hamingju og velfarnaðar í starfi næstu fjögur árin, var að kynna og fara yfir samþykktir aðalfundar.

Við þessa dagskrá bættist hins vegar málefni sem valdið hefur LS ólýsanlegum vonbrigðum.  

Þann 21. desember sl. ákvað ráðherra með undirritun reglugerðar að skerða þorskveiðiheimildir sem ætlaðar eru til strandveiða næsta sumar og almenns byggðakvóta.  

Breytt reglugerð leiðir til þess að til strandveiða eru ætluð 8.500 tonn sem er 1.500 tonnum minna en ákveðið hafði verið. 

Á fundinum mótmælti LS ákvörðuninni harðlega.  Sagði hana ganga þvert á þau markmið að tryggja 48 daga til strandveiða.  LS lagði áherslu á að strandveiðar væru þær veiðar sem yllu minnstu raski í hafrýminu og minnstu kolefnissótspori.  Auk þess hefðu þær reynst gríðarlega vel fyrir hinar dreifðu byggðir.  

Í ljósi þessa treystir LS á að ákvörðunin verði endurskoðuð, enda hér mikið alvörumál sem snertir um 700 útgerðir auk flest öll byggðarlög landsins.“

Hér má sjá breytingarnar:

Þarna má sjá að bæði byggðakvóti og kvóti til strandveiða skerðast. Viðbrögðin láta ekki á sér standa. Hér er eitt dæmi:

„Held að það sé kominn tími til að boðað verði til alvöru mótmæla fyrir framan alþingishúsið undir forystu LS og bera þetta lið út úr húsinu. Það er búið að vera að reyna að höfða til réttlætiskenndar þessa fólks í ansi mörg ár en allt kemur fyrir ekki. Það á að níðast á smábátasjómönnum og fólkinu í landinu nú sem aldrei fyrr. Þessi smábátafyrirlitning gengur ekki lengur. Einnig gæti verið kominn tími á að LS leggi inn stjórnsýslukæru á hendur þeim ráðamönnum sem leifa stórútgerðinni að komast upp með að eiga meiri kvóta en lög gera ráð fyrir. Smalið okkur saman og mætum svo allir sem einn, það er komið nóg af þessum hroka og fyrirlitningu við venjulegt fólk í þessu landi,“ skrifar Vigfús Ásbjörnsson, formaður Hrollaugs á Höfn í Hornafirði..