Svandís ósátt við ráðherrann
- fjarvera umhverfisráðherra frá Alþingi olli ósætti stjórnarandstæðinga.
Svandís Svavarsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra og þingflokksformaður VG, var fyrst á þingi í gær til að finna að því að Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra eða fyrirvaralaust ákveðið að mæta ekki í fyrirspurnartíma við upphaf þingfundar í gær.
„Ég vil gera athugasemd við það, virðulegi forseti, að þetta gerist með þessum hætti því að hér er um að ræða ráðherra sem stendur í eldlínunni akkúrat núna, og ekki síst vegna beiðni formanns bæjarráðs Reykjanesbæjar um tafarlausa lokun á verksmiðju United Silicon vegna mengunarmála þar suðurfrá. Það er full ástæða til þess að ráðherra umhverfismála sé þá til svara,“ sagði Svandís og spurði forseta þingsins hvort viðhlítandi skýringar séu á framkomu ráðherrans gagnvart þinginu, einsog hún orðaði það.
Svandís sagði að fyrirkomulagið á Alþingi sé með þeim hætti að; „…það er ekki algengt að við þingmenn eigum þess kost að eiga orðastað við hæstvirtan ráðherra. Það eru tveir hálftímar merktir þessum dagskrárlið, óundirbúnar fyrirspurnir. Hæstvirtur umhverfis- og auðlindaráðherra var á dagskránni sem ráðherra sem sæti hér fyrir svörum. Svo berast okkur þær upplýsingar fyrir hádegi að hún verði ekki hér til svara.“
Átta aðrir þingmenn komu í ræðustól sömu erinda. Allt stjórnarandstæðingar. Stjórnarþingmenn tjáðu sig ekki um fjarveru umhverfisráðherrans.