„Gylfaskýrslan er komin út. Þar kemur margt fróðlegt fram. Meðal annars að til þess að rekstur hjúkrunarheimila árið 2019 hefði verið í jafnvægi hefðu daggjöldin þurft að vera 6,3% hærri en þau voru. Og þá er reyndar búið að taka frá framlag sveitarfélaga til þeirra heimila sem þau reka. Með framlögunum hefði hækkunin ekki þurft að vera svo mikil. En þess ber að geta að sveitarfélögum landsins ber engin skylda til að greiða með rekstri hjúkrunarheimila,“ skrifar Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna og formaður Samtaka í velferðarþjónustu, í Moggann.
„Margir hafa brugðist við niðurstöðum skýrslunnar. Þar á meðal heilbrigðisráðherra. Á síðasta ári þegar vinna við gerð skýrslunnar var í fullum gangi sagði sami ráðherra, og reyndar nær allir þeir stjórnmála- og embættismenn sem tjáðu sig á annað borð, að það væri mjög mikilvægt að fá niðurstöður hennar til að átta sig á því hversu mikið fjármagn vantaði inn í rekstur hjúkrunarheimilanna. Sami ráðherra segir nú, þegar fyrir liggur að það vantar talsvert fjármagn inn í reksturinn, að ríkisvaldið (ráðherrann) sé bundið af fjárlögum og það sé ekki hægt að bæta við fjármagni inn í vanfjármagnaðan rekstur hjúkrunarheimilanna. Sérstakt. Einnig bendir ráðherrann á nauðsyn þess að huga að skipulagi öldrunarþjónustunnar, bæta í og auka við heimahjúkrun og eyða minni fjármunum í rekstur hjúkrunarheimila. Hárrétt. Þetta eru reyndar gamlar lummur sem ég hef heyrt oft áður á þeim rúmu 30 árum sem ég hef starfað í öldrunarþjónustunni. Og hingað til hefur því miður oftar en ekki lítið orðið um efndir. En ég tek engu að síður undir þessi orð ráðherra og það er mjög mikilvægt að öllum þeim fjármunum sem varið er til umönnunar aldraðra sé sem best varið, fyrir alla aðila. En breyting á framtíðarfyrirkomulagi öldrunarþjónustu hjálpar ekki hjúkrunarheimilum landsins í núverandi rekstrarvanda,“ skrifar Gísli Páll.
„Ég tel afar brýnt að sá vandi verði leystur með viðunandi hætti. Samtal milli aðila væri gott fyrsta skref. Búið er að skilgreina hver vandinn er, það kemur fram í skýrslunni góðu. Nú vantar bara góðan vilja ráðamanna landsins til að leysa hann. Hef fulla trú á því að það takist. Fjárlögum ríkisins hefur áður verið breytt af minna tilefni en því að halda rekstri hjúkrunarheimila hér á landi gangandi.“