Svo er að sjá sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra viti ekki hvers vegna miðstöð sjúkraflugs er í Norðausturkjördæmi. Hún ætlar að láta kanna það augljósa, þ.e. hvort ekki sé sniðugra að fela Landhelgisgæslunni stærri þátt í sjúkrafluginu.
Niðurstaðan liggur í augum uppi. Jafnt og ástæða þess að málum sé ekki þannig fyrirkomið nú þegar. Ástæðan hefur ekkert með ágæti þjónustunnar að gera. Ástæðuna má rekja til þess að sjúkraflugið skapar atvinnu og tekjur fyrir Mýflug og annað fólk í norðasturkjördæmi. Flóknara er þetta ekki.
Best fer að spyrja fyrst útverði kjördæmisins; Steingrím J. Sigfússon, Kristján Þór Júlíusson, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, Loga Einarsson og nokkra til viðbótar. Ef þeir segja strax nei, þarf ekkert að halda áfram með athuganir á hvort ekki sé hagkvæmar og almennt skynsamlegra að hafa sjúkraflugið hjá þeim sem eru hæfastir allra og sem ráða yfir bestum vélakosti.
Steingrímur ætti að segja Svandísi strax hvort hann og félagar hans fallist á breytingar. Ef ekki, sem er sennilegast, er skynsamlegast fyrir heilbrigðisráðherra að snúa sér að einhverju öðru verkefni. Af nógu er að taka í ráðuneyti Svandísar.
-sme