Svandís: Við erum að bjarga heilbrigðiskerfinu
Nítján ljósmæður hættu störfum í dag. Fleiri hafa sagt upp. Neyðaráætlanir í gangi. Lokað á bráðamóttöku geðdeildar og eins á hjartagáttinni.
„Það er stundum talað um að við séum ekki að stuðla að kerfisbreytingum í þessari ríkisstjórn. Það er rangt. Við erum að bjarga heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og samgöngunum frá langvinnri vanrækslu og ásælni peningaaflanna í landinu. Það er búið að rétta efnahagslífið við eftir hrunið. Eftir standa innviðirnir, margir hverjir vanræktir til langs tíma. Viðfangsefnin eru alls staðar. Þess vegna erum við hér.“
Trúi hver sem vill, en þetta eru óbreytt orð Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, sem hún lét falla í þingræðu um miðjan desember í fyrra.
Svandís hélt áfram: „Við erum að gera við samfélagsinnviðina, virða samfélagssáttmálann, hefja aftur á loft þá sýn okkar flestra að enginn verði skilinn eftir og vinna samkvæmt því; gera við, breyta og bæta en líka byggja nýtt og byggja við í góðri samvinnu við fólkið sem best þekkir til og veit hvar þörfin er mest,“ sagði hún einnig og bætti svo við:
„Við erum að efla opinbera heilbrigðiskerfið, hlut aldraðra og öryrkja, skólana, tungutæknina og náttúruverndina. Við ætlum okkur að styrkja stöðu barnafólks, kvennastétta og brotaþola kynferðisbrota. Þetta eru mikilvægar samfélagsumbætur.“
Eflaust sýnist sitt hverjum um hvernig Svandísi og hennar fólki hefur tekist til með þau verk sem hún taldi upp fyrir rétt rúmlega hálfu ári.
En þetta var ekki allt, Svandís sagði líka:
„Við ætlum að ráðast gegn fátækt í landinu. Við viljum ráðast gegn ójöfnuði, auka samneyslu, draga úr greiðsluþátttöku þeirra sem veikast standa og byggja upp eins og við frekast getum innviði á öllum sviðum. Við viljum réttlátara samfélag.“