- Advertisement -

Svala segir aðferðir lögreglu úreltar: „Þessar haldlagningar hafa engin áhrif“

Haldlagning lögreglu á miklu magni fíkniefna hefur óveruleg áhrif á fíkniefnamarkaðinn, og að meira ætti að vera lagt upp úr fræðslu og skaðaminnkun; einnig að skoða þurfi hvað valdi aukinni eftirspurn eftir fíkniefnum, segir sérfræðingur í skaðaminnkun.

Nýverið hefur lögreglan hér á landi lagt hald á meira af fíkniefnum en nokkru sinni áður. Söluandvirðið hleypur á milljörðum króna.

En hefur slík haldlagning einhver áhrif – jákvæð eða neikvæð?

Svala Jóhannesdóttir er sérfræðingur í skaðaminnkun hjá Matthildi, samtökum um skaðaminnkun. Hún segir margra áratuga reynslu sýna að aðferðir eins og lögreglan notar enn í dag skili ekki mælanlegum árangri í því að draga úr framboði og eftirspurn eftir fíkniefnum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Markmiðið með svona haldlagningu er að draga úr framboðinu sem er í sölu á ólöglegum markaði. En í gegnum þessa áratugi höfum við séð gögn frá mörgum löndum að haldlagningar í rauninni hafa ekki þennan árangur; draga ekki úr framboði og eftirspurn eftir efnunum, en hins vegar geta þær aukið skaðann hjá notendum vímuefna í landinu. Það er að segja þegar það myndast svona smá rými, þegar það er skortur á efnum í stuttan tíma þá er ákveðin áhætta að hættulegri efni komi inn vegna þess að eftirspurnin er nákvæmlega sú sama.”

Hún segir einnig að fólk sem glími við alvarlegan vímuefnavanda gangi enn lengra til að verða sér úti um efni þegar erfiðara sé að fá þau; notkunin hætti ekki; harkan verður meiri, og kostnaður eykst mikið vegna slíkra aðgerða hjá lögreglunni.

„Þegar kemur að svona aðgerðum varðandi haldlagninu í svona stórum fíkniefnamálum, skiptir máli að við hugum að því að þetta eru mjög kostnaðarsamar aðgerðir. Þær taka oft margar vikur, jafnvel mánuði og stundum ár. Þetta er stór mannafli og það eru margir tímar sem liggja þarna að baki. Og ef maður skoðar bara kostnaðinn á móti heildarárangri, þá, því miður, draga svona haldlagningar ekki úr framboði af vímuefnum á ólöglegum markaði. Þannig að það er alveg eðlilegt að við setjum spurningarmerki við árangurinn miðað við kostnaðinn,” segir Svala og heldur áfram:

„Við erum svolítið með þessari bann- og refsistefnu að setja allan fókus og þunga á framboðið. Það er að segja að reyna elta upp þessi fíkniefni og taka þau úr umferð og þannig hefur þessi trú myndast um að þá séum við í raun að ná árangri, en þegar að við skoðum gögnin þá hafa þessar haldlagningar bara í raun engin áhrif. Bara engin svona heildaráhrif á stöðu magns á vímuefnum inni á ólöglegum markaði. Og við ættum í raun alltaf að vera að setja fókusinn á eftirspurnina.

Hvað veldur því að fólk er að sækjast svona mikið eftir vímuefnum því það hefur verið að aukast á síðustu áratugum. Þannig að fókusinn ætti að vera þar. Fókusinn ætti alltaf líka að vera á því að við viljum draga úr skaða. Við viljum draga úr áhættu sem fylgir vímuefnanotkun, við viljum draga úr skaðseminni og við viljum náttúrulega sérstaklega draga úr þessum dauðsföllum.

Við sjáum til dæmis á Íslandi að ótímabær dauðsföll, þau eru að aukast. Þá þurfum við kannski að fara bara að horfast í augu við það og vera bara svolítið heiðarleg og skoða hvað getum við gert betur,” segir Svala og nefnir einnig að hægt sé að líta til þess hvernig önnur lönd hafa verið að endurskoða sína nálgun í þessum málum.

„Þá sjáum við að lönd sem eru með frjálslyndari fíkniefnalöggjöf eru ekki með meiri vímuefnanotkun í landinu heldur en lönd sem eru með stranga fíkniefnalöggjöf. Það hversu ströng fíkniefnalöggjöfin er hefur ekki þau áhrif að það séu færri sem nota í landinu. Það eru allt aðrar sem hafa mun meiri áhrif.”

Kemur Svala inn á félagslega þætti; svo sem efnahag – stöðu – áfallasögu og ýmislegt fleira.

„Við þekkjum regluvæðingu á áfengi mjög vel. Áfengi er löglegur vímugjafi og Ísland hefur farið þá leið að regluvæða áfengi. Það er að segja að efnið er löglegt, þú mátt nota það og kaupa það, en innan ákveðinna marka. Það er mjög sterk reglugerð varðandi það. Við þekkjum það mjög vel og höfum náð mjög góðum árangri varðandi áfengisnotkun.

Eitt af því er að miðað við mörg önnur lönd að þá eru ótímabær dauðsföll vegna áfengisnotkunar hér kannski ekki mjög há miðað við annars staðar. Sumir eru á því að það eigi að regluvæða fleiri vímuefni og ríkið eigi að taka ábyrgð á fleiri vímuefnum.

En mín skoðun er sú, þegar maður bara skoðar gögnin, að það skiptir mestu máli að við förum í þessa viðhorfsbreytingu sem er náttúrulega búin að vera í gangi á Íslandi, og það er búið að leggja fram þessi frumvörp. Af því að fyrsta skrefið er að við förum að líta á vímuefnanotkun sem heilbrigðismál og félagslegt mál, í staðinn fyrir að við séum að meðhöndla það innan réttarvörslukerfisins.”


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: