Sunna um Einar Þorsteins: „Ég var sú eina sem hló að bröndurunum hans“
Fréttakonan Sunna Valgerðardóttir kynntist Einari Þorsteinssyni verðandi borgarstjóra þegar hún hóf störf á RÚV fyrir níu árum.
Hún lætur vel af Einari:
„Hann tók mér mjög vel og var mjög áberandi sem kemur kannski lítið á óvart, svo það var erfitt að hunsa nærveru hans. Við urðum mjög fljótt góðir vinir og samstarfið var alltaf gott – þó við ættum það alveg til að öskra hvort á annað þá risti það aldrei djúpt.“
Sunnar segir að Einar „sé fylginn sér, er það ekki fallegt orðalag yfir að vera þrjóskur?“ spyr Sunna og hlær.
Bætir við:
„Hann elskar að taka þátt í keppnum, hvort sem það er spurningakeppni, búningakeppni eða jólaskreytingakeppni og hann er með mikið og óþolandi keppnisskap; hann er ofsalega tapsár; er virkilega pirrandi sem slíkur, en er enn verri þegar hann vinnur. Sem er slæmt því hann vinnur eiginlega alltaf.“
Eitt segir Sunna að muni sjást vel um næstu jól á fréttastofu RÚV vegna brotthvarfs Einars í stjórnmálin – minni jólaskreytingar, en hann er mikill jólaskreytingarmaður, og telur Sunna að í stað þess að starfsfólk RÚV njóti skreytinga hans muni „starfsfólk Ráðhússins, og mögulega íbúar Reykjavíkur bara í heild, eiga von á góðu.“
Mögulega tengist áhugi Einars á jólaskreytingum því að hann á afmæli á aðfangadag:
„Litla Jesúbarnið á auðvitað afmæli á aðfangadag sem gerir þetta allt saman enn meira óþolandi. Hann heldur líka oft að hann sé sá fyrsti í mannkynssögunni til að afreka hitt eða þetta. Labba á Esjuna. Flytja. Endurgera baðherbergi. Fara í ferðalag. Eignast barn. Verða borgarstjóri. En það hafa bara margir gert það á undan honum, þó að hans upplifun sé oft önnur,“ segir Sunna glettin.
En þetta stóra skref Einars úr fjölmiðlum yfir í stjórnmálin virðist ekki hafa komið Sunnu mikið á óvart.
„Kom mér ekki beint á óvart, en það hefði fátt komið mér þannig séð á óvart eftir að hann hætti hér. Ég var búin að leggja hausinn lengi í bleyti varðandi það en fékk ekkert upp úr honum,“ segir Sunna og bætir við:
„Auðvitað saknar maður hans af vinnustaðnum, en hann saknar mín sennilega enn meira því ég var raunverulega sú eina sem hló að bröndurunum hans. Ekki veit ég hvernig ég entist svona lengi í því vegna þess að þeir eru yfirleitt alltaf hroðalegir.“
Einar er augljóslega fylginn sér og fullur sjálfstrausts, og talað hefur verið um að hann sé með þrjóskari mönnum – en samt á jákvæðan hátt:
„Þótt hann sé þrjóskur er hann oftast til í að hlusta á ráðleggingar annarra og sérstaklega þeirra sem eru reynslumeiri og það er víst nóg af fólki sem er reynslumeira en hann núna,“ segir Sunna.
„Hann var vaktstjóri minn þegar ég byrjaði og mér fannst hann alltaf langbesti vaktstjórinn. Hann er góður í að leiðbeina og sjá heildarmyndina en líka góður í að útdeila verkefnum og treysta fólki fyrir því sem það á að sinna.“