Fréttir

Sundruð Samfylking í skattamálum

By Miðjan

August 23, 2014

Stjórnmál Eftir að hafa talað við og heyrt í þingmönnum Samfylkingarinnar er ljóst að ekki er einhugur innan þingflokksins um komandi breytingar á virðisaukaskattinum. Oddný Harðardóttir, þingmaður í Suðurkjördæmi og fyrrverandi fjármálaráðherra, hefur sagst taka undir með Bjarna Benediktssyni um nauðsyn þess að einfalda kerfið og draga úr mismuninum sem er milli hærra stigs virðisaukans og þess lægra, það er þess sem almennt er kallað matarskatturinn.

Af samtölum við þingmenn er morgunljóst að innan Samfylkingarinnar eru skiptar skoðanir um málið og ekki fer á milli mála að þar eru deildar meiningar. Einn þeirra sem rætt var við aftók með öllu að styðja hugmyndina um hærri matarskatt og seint verði fundin leið til að koma til móts við það fólk sem erfitt mun eiga að mæta breytingunum, komi þær til framkvæmda.

Meðan nokkrir þingmenn Framsóknarflokksins koma fram og tala gegn hugmyndum fjármálaráðherra er einstaka rödd úr stjórnarandstöðunni sem mun styðja málið, það er ef aðrar aðgerðir verði nægilegar að þeirra mati.