Nú verða afborganir hækkaðar, að öðru óbreyttu um 35% með því að stytta lánstíma.
Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi þingmaður og nú starfsmaður Seðlabankans, er sýnilega lítt hrifinn af banni á löngum verðtryggðum lánum. Hann skrifar ítarlega um þetta í Moggann í dag. Og þá hvað komi til með taka við af þeim lánum.
„Í þess stað eru komin „summufræði“, þar sem lagðar eru saman heildargreiðslur á lánstíma, án þess að hugað sé að tímavirði lánsfjár.“
Vilhjálmur skrifar einnig: „Nú um stund lána lífeyrissjóðir um 80% af lánum til húsnæðiskaupa á Íslandi. Sumt lána þeir beint, annað lána lífeyrissjóðir um farvegi Íbúðalánasjóðs og enn annað lána lífeyrissjóðir með sérvörðum skuldabréfum í gegnum hefðbundna banka. Verður þetta í boði áfram?
Vonandi munu lífeyrissjóðir gæta hagsmuna sinna sjóðfélaga, þeirra sem treysta því að lífeyrisgreiðslur verði ekki skertar vegna óábyrgrar hegðunar sálarhirða sinna. Þá þarf ekki að spyrja; „hvað er í þessum kjarasamningum fyrir okkur?“
Þessi lánaviðskipti hafa gengið vel fyrir sig án þess að Todda trunta eða Hanna halta hafi haft afskipti af hlutum, sem þeim koma ekki við.
Vér sem lítum á vora synd, vora stórkostlegu synd fyrir guði, með því að greiða umsamdar greiðslur á gjalddaga, þá viljum vér óska að sem flestir gætu orðið aðnjótandi þess frelsis og þeirrar sönnu gleði sem maður verður aðnjótandi ef maður í sannri auðmýkt beygir sín holdsins og hjartans kné við krossinn. Vér þurfum ekki annan kross.
Nú verða afborganir okkar hækkaðar, að öðru óbreyttu um 35% með því að stytta lánstíma. Vér sem viljum taka lán til bifreiðakaupa og greiða upp á fimm árum með verðtryggðum kjörum, megum aðeins greiða skemmst upp á 10 árum. Ef vér greiðum upp lánið innan 10 ára, þá er framinn glæpur, en sennilega mun skorta refsiheimildir.
Í töflu hér að ofan sjást greiðslur af mismunandi lánum, með mismunandi lánaskilmálum, með sömu ávöxtunarkröfu og sama núvirði, á fyrsta ári lánstímans. Er ekki rétt og eðlilegt að lántaki og lánveitandi semji sín á milli um greiðslukjör í syndinni? Tekið skal fram að hægt er að greiða aukaafborganir án kostnaðar fyrir lántaka. Það er önnur synd.“