Fréttir

Sumaruppbót og samningar á Akranesi

By Miðjan

July 14, 2014

Samfélag Bæjarráð Akraneskaupstaðar samþykkti á fundi sínum sl. fimmtudag að greiða sérstaka sumaruppbót vegna starfsmanna í Verkalýðsfélagi Akraness og Starfsmannafélagi Reykjavíkur. Þá var skrifað undir kjarasamning milli Verkalýðsfélags Akraness og Sambands íslenskra sveitarfélaga síðastliðinn föstudag og mun samningurinn fara til umsagnar hjá félagsmönnum á næstu dögum. Samningurinn gildir til 30. apríl 2015. Á föstudag var einnig haldinn kynningarfundur á Akranesi á vegum Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar þar sem nýr kjarasamningur var kynntur félagsmönnum. Sá samningur gildir einnig til 30. apríl á næsta ári. Sumaruppbótin er að fjárhæð kr. 26.585 miðað við fullt starf á ársgrundvelli og gildir þetta sérákvæði á meðan gildandi kjarasamningur er á milli samningsaðila.

Þetta kemur fram á skessuhorn.is.

Alls munu 220 starfsmenn fá sumaruppbót. Í tilkynningu frá Akraneskaupstað segir að markmiðið með sumaruppbótinni sé að mæta almennum starfsmönnum Akraneskaupstaðar sem vinna gjarnan við lægst launuðustu störfin. Ennfremur samþykkti bæjarráðið að greiða þeim starfsmönnum Akraneskaupstaðar sem hafa hvað lengstan starfsaldur og eru í Verkalýðsfélagi Akraness svokallaða sérstaka orlofsuppbót, eða 6% ofan á laun í júní.