Stjórnmál

Suðurnesjamenn langþreyttir á sinnuleysi stjórnvalda

By Miðjan

February 25, 2020

„Við Suðurnesjamenn erum satt að segja orðin langþreytt á sinnuleysi stjórnvalda og takmarkaðri þjónustu ríkisins einkum á heilbrigðisstofnuninni. Það er í raun óskiljanlegt það vinnulag sem farið er eftir þegar fjármunum er útdeilt til heilbrigðisstofnana. Til að mynda hefur ekki verið tekið tillit til þeirra miklu íbúafjölgunar sem hefur átt sér stað á Suðurnesjum en þar hefur fjölgað um nær 7.000 manns frá árinu 2013 sem er álíka fjöldi og býr á Vestfjörðum. Hvergi hefur verið tekið tillit til þeirrar miklu fjölgunar þegar kemur að framlögum ríkisins til Suðurnesja,“ sagði Oddný Harðardóttir á Alþingi.

Landlæknisembættið hefur gert skýrslu um heilsugæsluna á Suðurnesjum,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra: „Þar erum við með í raun nýja eftirfylgniskýrslu og þar hefur dregið til töluverðra tíðinda, þ.e. í gæðum þjónustunnar sem þar er veitt. Það hafa verið innleiddir gæðavísar, teymisvinna hefur verið aukin, það hefur betur gengið að manna stöður lækna og hjúkrunarfræðinga og sem stendur eru allar hjúkrunarfræðingastöður fullmannaðar.“

Oddný spurði hvernig ráðherrann hyggist bregðast við kröfum Suðurnesjamanna um nýja heilsugæslu og því að tekið sé tillit til íbúafjölda og íbúasamsetningar þegar fjármagn er ákveðið til þjónustunnar.

„En ég er mjög meðvituð um það sem háttvirtur þingmaður nefnir varðandi heilsugæsluna og mögulega þörf á því að bæta við heilsugæslu á þessu svæði. Mér finnst það koma fyllilega til skoðunar, en aðalatriðið er að gæði þjónustunnar séu fullnægjandi fyrir íbúa Suðurnesja eins og annarra landsmanna.