Styttist í endalokin hjá Loga?
Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri skefur ekki af hlutunum þegar hann lýsir vonbrigðum með afstöðu Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, um framtíð flugvallar í Reykjavík.
„Áhugaverðast verður samt að sjá hvort þetta þessi innkoma Loga sem þóknanlegs formanns meðal samfylkingarfólks sunnanlands marki jafnframt endalok hans sem stjórnmálamanns norðanlands…,“ skrifar Þóroddur á Facebook. Víst er að andstaða fræðafólksins við Háskólann á Akureyri getur reynst Loga erfið.
Logi svarar Þóroddi og bendir á að hann hafi áður talað á sömu nótum. „Hér er talað um innkomu mína sem formanns sem þóknanlega fyrir ákveðinn hóp. Þeir sem þekkja mig vita þó mæta vel að ég hef lengi talið að þetta erfiða mál yrði að leysa þannig að sjónarmiðum beggja deiluaðila sé gert hátt undir höfði.“
Víst er að hörðustu varðmenn flugvallarins í Reykjavík eru áberandi og áhrifamiklir á Akureyri, heimabæ Loga. Þeir berjast hart gegn öllum áformum um að Reykjavíkurflugvelli verði lokað. Víst er að Logi sækir varla stuðning til þeirra að óbreyttu. Svo er annað hvort hann eigi möguleika á að vera áfram þingmaður norðausturkjördæmis eða ekki. Þá skýrist einnig í fyllingu tímans hvort prófessor Þóroddur Bjarnason hafi rétt fyrir sér og afstaða Loga til flugvallarins marki endalok hans sem stjórnmálamanns norðanlands.