Nú er kominn tími á slík samtöl.
Styrmi Gunnarssyni þykir greinilega nóg komið að vígaferlum í Sjálfstæðisflokki. Hann kýs að draga Framsókn í sama dilk og Sjálfstæðisflokkinn.
Styrmir skrifar:
Þegar ólíkar skoðanir eru uppi um meginmál í stjórnmálaflokkum kemur alltaf að því að tími kemur til að fólk úr ólíkum herbúðum tali saman.
Nú er kominn tími á slík samtöl bæði innan Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Í stað þess að búa um sig í skotgröfum þarf fólk að ræðast við.
Sú var tíðin í báðum þessum flokkum, að það var hin viðtekna venja, að skoðanaágreiningur var leystur með samtölum. Það hefur dregið úr slíku seinni áratugi.
Alla vega er ekki vitað til að slík samtöl hafi farið fram innan Sjálfstæðisflokksins áður en hópur sjálfstæðismanna, þar á meðal fyrrverandi formaður og varaformaður yfirgáfu flokk sinn.
Nú er kominn tími til að endurvekja slík vinnubrögð í báðum fyrrnefndum flokkum.
Það verður fróðlegt að sjá, hvort einhverjir í þeim röðum hafi þroska til að stíga fyrsta skrefið.