- Advertisement -

Styrkur ríkisstjórnarinnar er veik stjórnarandstaða

  • Eina spennan varðandi þessar kosningar, eini möguleikinn á markverðum breytingum, verður ef Sósíalistaflokkurinn fær góða kosningu.

Gunnar Smári skrifar:

Vond ríkisstjórn getur lifað ef valkosturinn er hvorki skýr eða skárri. Helsti styrkleiki ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er þessi stjórnarandstaða. Ég veit ekki hvort flokka eigi það undir klókindi, en myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, VG og Framsóknar bjó til undarlega stjórnarandstöðu, sem forysta flokkanna hefur ekki náð tökum á, ekki lært að vinna með.

Hvernig á fólk að vinna í stjórnarandstöðu þegar mögulegir samstarfsflokkar í nýrri ríkisstjórn eru innan núverandi ríkisstjórnar? Það er ekki einfalt.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Óska ríkisstjórn Loga Einarssonar er félagshyggjustjórn og til þess að mynda hana þarf Samfylkingin á VG að halda, jafnvel Framsóknarflokknum líka.

Óska ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er hægri stjórn og til að mynda hana þarf Miðflokkurinn Sjálfstæðisflokkinn, Viðreisn og Framsóknarflokkinn líka (sem sumt af forystufólki Miðflokksins væri til að í að yfirtaka með einhverjum hætti, sameina flokkana undir nafni Framsóknar en stefnu Miðflokksins).

Óska ríkisstjórn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur er mið-hægri stjórn, en til að mynda hana þarf Viðreisn Samfylkinguna og Sjálfstæðisflokkinn (sem margt af forystufólki Viðreisnar myndi helst kjósa að renna saman við, ef því yrði tryggð örugg staða innan flokksins).

Óska ríkisstjórn Flokks fólksins er engin. Þótt Inga Sæland sé ekki alltaf með skarpa mynd á eigin getu, þá veit hún að flokkurinn hennar (sem í raun er hún) hefur enga aðstöðu til að láta sig dreyma um þátttöku í ríkisstjórn. Markmið flokksins og Ingu er að lifa af, nota stórkostleg framlög úr ríkissjóði til að auglýsa sig aftur inn á þing.

Óska ríkisstjórn Pírata er ríkisstjórn þeirra, Samfylkingar og Viðreisnar, hinnar svokölluðu frjálslyndu miðju. Gallinn er að þessir flokkar mælast yfirleitt í könnunum með um 35-38% fylgi og náðu aðeins 28% í síðustu kosningum (kosningabarátta er ekki styrkur Pírata, þeir dala yfirleitt mjög síðustu vikurnar). Píratar eru því lokaðir inni í löngun sinni til að vera alvöru flokkur, það er ekki bara stjórnarandstöðuflokkur sem gaman er að hafa, en eru samt ekki komnir nógu langt inn í hinn sjúka stjórnmálakúltúr að þeir eigi sér raunhæfa óska ríkisstjórn. En þá langar inn, og reyna mikið til að vera stofuhæfir. En vilja líka halda í sakleysið og hreinleikann.

En það eru ekki bara stjórnarandstöðuflokkarnir sem eiga í erfiðleikum með að fóta sig þegar hefðbundin karpstjórnmál Alþingis virka ekki lengur. Það sama á við um fjölmiðlana, eins og Kjarnann hér. Flestir vita að öflugasta stjórnarandstaðan á kjörtímabilinu hefur komið frá Sósíalistaflokki Íslands og út frá þeirri endurreisn verkalýðshreyfingarinnar sem spratt af starfi flokksins. Ef Kjarninn gerði sér grein fyrir að völdin væru að riðlast í samfélaginu og þeir farvegir valds innan stjórnmálanna sem markað hafa stjórnmál liðinna áratuga væru að þorna upp; þá hefði fjölmiðillinn náttúrlega kallað bæði Sósíalistaflokkinn og hina nýju forystu verkalýðshreyfingarinnar að þessu borði. Og þá hefði birst skýr valkostur á móti núverandi ríkisstjórn, ekki aðeins jarm um að lagfæra mætti þetta eða hitt.

Kosningarnar á næsta ári munu snúast um hvort landsmenn vilji byggja hér upp réttlátt samfélag, leggja af stefnu nýfrjálshyggjunnar sem allir þeir flokkar sem rætt er við í þessari grein hafa gert að sinni stefnu, þótt útfærslan sé eilítið ólík. Eini valkosturinn til slíkra breytinga er Sósíalistaflokkur Íslands. Þannig verða kosningarnar ekki aðeins um réttlátt samfélag heldur um hvort landsmenn vilji hafna stjórnmálum liðinna áratuga. Eina spennan varðandi þessar kosningar, eini möguleikinn á markverðum breytingum, verður ef Sósíalistaflokkurinn fær góða kosningu. Allt annað er meira og minna það sama, aðeins spurning um eilítið ólíka áferð á óbreyttri stefnu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: