Fréttir

Styður Sjálfstæðisflokkurinn svona hörmungarumgjörð?

By Miðjan

April 01, 2014

„Ég vil spyrja: Er þessi forgangsröðun, er þessi afstaða, er þetta viðskiptaumhverfi í samræmi við áherslur hæstv. fjármálaráðherra og styður Sjálfstæðisflokkurinn svona hörmungarumgjörð um frjáls viðskipti og milliríkjaviðskipti í landinu?“

Þessari fyrirspurn beindi Árni Páll Árnason til Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formans Sjálfstæðisflokksins á Alþingi í gær.

Bjarni Benediktsson byrjaði á að segja að hann hafi ekki orðið var var við neina meiri háttar stefnubreytingu þegar ríkisstjórn hv. þingmanns var hér við völd heilt kjörtímabil í þessum málaflokki.

Árni Páll rakti að Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra hafi verið tilbúinn að heimila Mjólkursamsölunni tollfrjálsan innflutning á smjöri fyrir jól vegna skorts á smjöri en hann hefur synjað beiðni Haga um tollfrjálsan innflutning á ostum á nákvæmlega sömu efnislegu forsendum og þar með sýnt eindreginn vilja til að taka með ósambærilegum hætti á sambærilegum málum og aðstæðum.

Árni Páll sagði að landbúnaðarráðherra hafi í síðustu viku svarað Brynhildi Pétursdóttur og hafi þá varið mjög það umhverfi sem vakið hefur furðu í almenni fjölmiðlaumfjöllun undanfarnar vikur um fyrirkomulag tollverndar franskra kartaflna og nasls sem unnið er úr kartöflumjöli. „Þannig er 76% tollur lagður á innfluttar franskar kartöflur þrátt fyrir að einungis lítill hluti innlendrar framleiðslu franskra kartaflna kom úr innlendu hráefni. Herkostnaðurinn er 250 millj. kr. í tollum sem greiddir eru af íslenskum neytendum einvörðungu fyrir franskar kartöflur á árinu 2012 og síðan 59% tollur á nasl úr kartöflumjöli þegar annað nasl er innflutt tollfrjálst.“

Bjarni sagði hér nefnd nokkur dæmi af handahófi nokkur dæmi sem verður að skoða hvert fyrir sig. „Í fyrsta lagi vil ég segja varðandi mjólkurframleiðsluna og sóknarfæri íslenskra bænda á því sviði þá sáum við síðast í fréttum í blöðunum í morgun að gríðarlega mikil sóknarfæri eru til útflutnings á íslenskum mjólkurafurðum sem geta gefið okkur tækifæri á nýjum mörkuðum og við eigum að grípa þessi tækifæri, auka framleiðsluna, flytja vöruna út og um leið getum við fellt niður tolla í tvíhliða samningum og tekið inn vörur sem við erum að framleiða minna en eftirspurn er eftir hér heima fyrir.“

Hann sagði umræðuna hafa um of snúist um að við förum í einhliða niðurfellingar á tollum án þess að neitt annað komi fyrir. En á sama tíma erum við í þörf fyrir að opna markaði fyrir vörur sem við getum framleitt. Á undanförnum áratug eða svo, kannski einum og hálfum áratug, höfum við nokkur dæmi um að breytingar á umhverfinu sem menn áætluðu fyrir fram að gætu falið í sér miklar ógnir fyrir bændur í landinu hafi þegar upp var staðið falið í sér töluvert mikil tækifæri.

„Ég nefni sem dæmi þegar opnað var yfir aukinn innflutning á ýmiss konar grænmeti til Íslands. Niðurstaðan varð sú að aukin neysla varð og stóraukin framleiðsla íslenskra bænda á grænmeti í landinu. Það sem menn óttuðust fyrir fram fól í sér þegar upp var staðið töluvert mikil tækifæri. Ég tel að þetta gildi enn á hinum ýmsu sviðum ef menn hlusta eftir því sem markaðurinn er að leita að, samanber það þegar íslenskir ostaframleiðendur fóru að bjóða upp á niðursneiddan ost þá stórjókst salan, við það eitt að nálgast neytendur með nýjum aðferðum. Ég gæti haldið lengi áfram en í kartöfludæminu ber að horfa til þess að við erum líka með tvíhliða fríverslunarsamninga, t.d. við Kanadamenn, þar sem allt aðrir tollar eru í gildi.“

Árni Páll var ekki á eitt sáttur og sagði meðal annars að Bjarni hafi vitnað

til fordæmis frá landbúnaðarráðherratíð Guðna Ágústssonar. „Það er alveg rétt, þá voru stigin mikilvæg skref í átt til þess að auka milliríkjaviðskipti, afnema tollverndina, vegna þess að hún er vond í sjálfu sér, og íslensk garðyrkja naut góðs af og íslenskir garðyrkjubændur. Vandinn er sá að núverandi ríkisstjórn er mun afturhaldssamari í þessum efnum en Guðni Ágústsson var á sínum tíma og við söknum framsýni hans í þessum efnum þegar við sjáum hinn stirðnaða Sjálfstæðisflokk í þessum málum núna. Vandinn er bara sá að það er ekki verið að stíga nein af þessum skrefum.“ Hann sagði að ekki sé verið að sækja fram og spurði: „Hvar er þá stefnan?“

„Stefnan er sú að við gerum minna af því sem hæstvirtur þingmaður talar um, þ.e. að fella einhliða niður tolla, og gerum meira af því að gera tvíhliða eða marghliða samninga um að opna markaði fyrir þær afurðir sem við framleiðum í landinu og stóraukin eftirspurn er eftir, ekki bara í Evrópu heldur á mörgum öðrum mörkuðum. Þannig munu opnast leiðir fyrir þær afurðir sem við sækjumst eftir hingað heim til Íslands á sama tíma og við erum bæði með opnara og sterkara markaðskerfi. Engar slíkar breytingar koma upp í hugann sem gerðar voru á síðasta kjörtímabili en engu að síður tala menn mjög fjálglega um að hér sé allt í einhverri stirðnun og stöðnun. Það var alger stöðnun í þessum málaflokki á síðasta kjörtímabili en hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra er einmitt með viðræður í gangi um að greiða fyrir auknum útflutningi á þessu sviði sem geta um leið fært okkur ný tækifæri hér heima fyrir ef horft er út frá sjónarhóli neytenda.“

-sme

 

 Átján þúsund og fimm hundruð

 Á síðustu fjórum vikum lásu 18.500 Miðjuna.