Launahækkanir til bankastjórans munu hafa áhrif á kjaraviðræður.
Vilhjálmur Birgisson skrifar:
Það er óhætt að segja að þetta séu sturlaðar og galnar launahækkanir, enda hækkar bankastjóri Landsbankans um 1,7 milljón á mánuði eða sem nemur 82% á einu ári.
Já, þetta eru svo sannarlega galin og sturluð launahækkun sem klárlega mun leiða til þess að forherða okkur í verkalýðshreyfingunni berjast af alefli fyrir því að ráðstöfunartekjur lágtekjufólks hækki þannig að þau dugi fyrir nauðþurftum frá mánuði til mánaðar.
Nú verður hins vegar afar fróðlegt að sjá og heyra viðbrögð frá seðlabankastjóra, fjármálaráðherra, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins að ógleymdum Herði Ægissyni leiðarahöfundi Fréttablaðsins við þessari sturluðu launahækkun bankastjóra Landsbankans sem er nánast í 100% eigu ríkisins.
Ætla þessir aðilar kannski að þegja þunnu hljóði núna af því þetta er aðili sem tilheyrir efrilögum snobbelítunnar? Hafa þessir aðilar ekki neinar áhyggjur að þessi launahækkun uppá 82% ógni ekki stöðugleikanum, eða valdi óðaverðbólgu að ógleymdu hinu margfræga höfrungahlaupi.
Ég er eiginlega ekki í nokkrum vafa um að ákvörðun um að hækka laun bankastjóra Landsbankans um 1,7 milljón á mánuði mun hafa gríðarleg áhrif á þær kjaraviðræður sem nú eru í gangi.
Það er einnig fátt sem því miður virðist ætla að koma í veg fyrir hörð átök á íslenskum vinnumarkaði enda er íslenskt verkafólk búið að fá upp í kok af þessari misskiptingu, óréttlæti og ójöfnuði í íslensku samfélagi.