„Fámennri klíku voru þeir fengnir í aldarbyrjun. Allt var keyrt í þrot, en þó er almennt talið, að sumir hafi skotið undan stórfje. Íslenzk stjórnvöld heimiluðu innflutning þessa fjár á ný með vildarkjörum; 20% afslætti að minnsta kosti sem gerði þessu fólki kleift að ná til sín stóreignum á nýjaleik. Gæti verið, að íslenzka ríkið hafi með þessari ráðstöfun átt þátt í peningaþvætti? Liggur fyrir, hvaðan þessir fjármunir eru ættaðir? Eiga bankarnir það ekki sameiginlegt öðrum auðfjelögum, að þar eru nú bullandi uppgrip sem aldrei fyrr? Hvaðan skyldi sá gróði vera ættaður? Eru íslenzku auðmennirnir, sem fyrri ríkisstjórnir hafa skotið fótum undir af almannafje, óseðjandi? Er það þetta, sem nú heitir „alþjóðleg þróun í fjártækni“?“
Séra Geir Waage skrifar sérlega eftirtektarverða grein í Moggann í dag. Skrifin hér að ofan er tilvitnun í greinina. Geir er sýnilega mótfallinn bankasölu Bjarna Benediktssonar.
„Þeir hlutir sem falboðnir verða í bönkunum lenda í höndum lífeyrissjóða og stóreignamanna, verði af sölu á næstunni. Þetta veit öll alþýða manna og óttast nýja „einkavinavæðingu“ og mismunun. Það þarf að svara fleiri spurningum af hálfu Sjálfstæðisflokksins áður en talað er fyrir sölu bankanna í ljósi reynzlunnar. Spurt er: „Hverjum stendur til að hygla núna, á elleftu stundu?“ Kunna þingmenn Sjálfstæðisflokksins svör við því?“
„Óli Björn Kárason alþingismaður mælir fyrir sölu Íslandsbanka fyrir næstu kosningar. Hann vonar á sölu Landsbankans í framhaldinu; hefur enda lengi verið mótfallinn ríkisrekstri fyrirtækja, eins og fram kemur í yfirskrift greinar hans. Lengi áttum við báðir samleið með Sjálfstæðisflokknum, því íhald átti löngum samleið með gömlu kapítalistunum sem þurftu frelsi til athafna og notuðu það til að byggja upp atvinnu og afkomu í byggðum landsins. Þeir efnuðust margir og ljetu gott af því leiða landi og lýð. Andlitslaus og heimilislaus stórkapítalismi síðari tíma er af öðru sauðahúsi. Honum hefur reynzt vera skálkaskjól í flokknum okkar.
Nú bar svo við á öndverðri nýbyrjaðri þúsöld, að frjálshyggjumönnum var gefinn laus taumurinn um víða veröld. Hjerlendis var þeim fengið frítt spil með fjármuni almennings að auki. Íhaldið í Sjálfstæðisflokknum dugði þá ekki til andófsins. Látið var heita, að kaup hefðu verið, svo sem þegar Síminn var seldur, vel rekið fyrirtæki í bullandi gróða. Hvað fjekkst fyrir hann, þegar upp var staðið? Með klækjum tókst þeim að komast yfir bankana. Sú „einkavæðing“ reyndist þjóðinni dýr. Nú er lagt til að ríkið láti „almenning njóta þess virðisauka sem hefur myndast innan veggja bankanna frá endurreisn þeirra. Svigrúmið var myndað með vel heppnuðu uppgjöri þrotabúa gömlu bankanna, stöðugleikasamningum og sölu ríkisins á 13% hlut í Arion banka árið 2018,“ segir í greininni.
Gæti verið að svigrúmið eigi einhverjar rætur að rekja til þess, að ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms gaf sjóðum og bönkum þær skuldir heimilanna sem nýir eigendur gengu svo eftir með harðfylgi? Talað er um að þúsundir heimila hafi tapað öllu sínu. Í hlut eiga þúsundir Íslendinga. Sigmundur Davíð reyndist fólkinu betur en enginn. Loforðið um að banna verðtryggingu húsnæðislána hefur gleymzt. Sagan gæti endurtekizt.
Hver er ástæða þess að nú þurfi að selja? Þarf ríkissjóður fje vegna pestarviðbragða? Á salan að kosta opinberar framkvæmdir við innviði lands og lýðs? Á að greiða niður skuldir ríkisins?
Áður hafa komið fram hugmyndir um, að Íslendingar taki við hlutafje í bönkum þjóðarinnar án endurgjalds. Hversu líklegt er að það verði nokkurn tíma? Vanti fje, sem vísast er, þarf að koma andvirði fyrir þetta alþýðuhlutafje. Vissulega mætti svo verða, að hlutirnir yrðu seldir almenningi á skynsamlegum kjörum, hverjum einum að einhverju hámarki. Yrði sá hinn sami að skuldbinda sig til að eiga hlutinn um eitthvert árabil, unz lögfest hefur verið hversu mikinn hlut hver og einn má eiga í sama bankanum. Er líklegt að svo verði nokkurn tíma?
Gæti ekki eins komið til greina að lækka bindiskyldu fjár í bankanum, taka til ríkissjóðs það fje sem í honum liggur laust og selja síðan hlutina á opnum markaði án hafta: Viðskipti með þessa hluti myndu leiða í ljós hvers virði bankinn er í raun. Ótækt er að gefa það fje sem í bankanum er, eins og gert var með Símann og bankana forðum.“