- Advertisement -

Stúdentspróf verði ekki skilyrði til háskólanáms

Ekki verði lengur krafist stúdentsprófs til að hefja nám við háskóla.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ásamt sjö öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram lagafrumvarp þar sem gert er ráð fyrir að ekki þurfi stúdentspróf til að hefja nám við háskóla. Að staða milli bóknáms verði jöfnuð. Þannig að skólarnir sjálfir setji upp þá þröskulda, til náms, sem þeir telja eiga við.

„Breytingin sem lögð er til með frumvarpi þessu snýst sem fyrr segir um að löggjafinn geri bóknámi og iðnnámi jafnhátt undir höfði þegar kemur að inngöngu í háskóla. Mikil skekkja hefur skapast milli námsvals og eftirspurnar eftir vinnuafli á Íslandi og mikilvægt er að brugðist verði við þessari stöðu sem allra fyrst. Þetta frumvarp er einungis hluti af þeim breytingum sem þarf að ráðast í til að gera iðnnámi hærra undir höfði,“ segir meðal annars í greinargerðinni sem fylgir frumvarpinu.

Greinargerðin hefst svona:

„Með frumvarpinu eru opnaðar dyr að háskólum fyrir nemendur sem hafa lokið öðru námi en stúdentsprófi.“

„Í frumvarpi þessu er lagt til að skýrt verði kveðið á um það í lögum um háskóla og lögum um opinbera háskóla að nemendur sem búa yfir þeirri færni og þekkingu sem svarar til krafna skólans um undirbúning fyrir nám á háskólastigi eigi þess kost að fá inngöngu í háskóla. Ekki verði lengur gerð sérstök krafa um stúdentspróf eða annað sambærilegt próf en þess í stað verði það á valdi háskólanna sjálfra að ákveða mismunandi kröfur fyrir einstakar námsleiðir. Frumvarpinu er ætlað að gera iðn-, verk- og starfsnámi jafnhátt undir höfði og bóknámi í löggjöf um inntökuskilyrði í háskóla.“

Skömmu síðar segir:

„Með frumvarpinu eru opnaðar dyr að háskólum fyrir nemendur sem hafa lokið öðru námi en stúdentsprófi. Nú þegar er í lögunum kveðið á um þær undantekningar að háskólum sé heimilt að innrita nemendur sem ekki hafa lokið stúdentsprófi eða öðru jafngildu prófi hafi þeir öðlast reynslu eða ráði yfir þekkingu og færni sem svarar til krafna skólans um undirbúning fyrir nám á háskólastigi. Ljóst er að í framkvæmd hefur slíkt undanþáguákvæði stuðlað að því að inntaka slíkra nema mætir ávallt afgangi. Markmiðið með frumvarpinu er ekki að fleiri sæki sér háskólamenntun heldur að háskólar séu opnari til þess að taka á móti fjölbreyttari hópi nemenda með mismunandi bakgrunn sem hafi þó næga þekkingu til þess að stunda háskólanám í ákveðnum námsgreinum. Stúdentspróf verður ávallt hin hefðbundna leið til undirbúnings undir bóklegt háskólanám en verði frumvarpið að lögum verður það ekki lengur aðalkrafa við innritun.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: