Það sér það hver maður að Pírata skortir eitt umfram allt annað. Það er strúktúr. Alla vega að þeirra mati. Flokkur sem ekki hefur strúktúr er í raun enginn flokkur. Það sér hver maður, eða hvað.
„Ég myndi segja að það væri ókostur að við erum ekki með eins mikinn strúktúr. Þær stöður sem verða innan flokksins taka mun meira pláss en ætlast er til af þeim í stað þess að verið sé að dreifa valdinu með skýrum hætti eins og er gert í öðrum flokkum með formennsku, varaformennsku og þingflokksformennsku,“ sagði Ásta Guðrún Helgadóttir við Fréttablaðið, en hún hætti sem þingflokksformaður Pírata. Strúktúrleysið er greinilega illa þolandi.
Nú eru örfáir þingdagar eftir þar til Alþingi fer í sumarfrí. Svo hart leikur strúktúrleysið þingflokk Pírata að þeim var lífsins ómögulegt að hanga saman í sátt í nokkra daga í viðbót.
Fyrir okkur sem stöndum utan við er sem fleira vanti en strúktúr í þingflokk Pírata. Í hópum er oft gott að miðla málum, finna sátt og hafa svo mannaskipti með eðlilegum hætti. Það hefði verið kjörið fyrir Pírata í lok þingvetrar.
En strúktúrinn má ekki vanta. Án hans er allt ómögulegt. Innanmein tekur sig upp innan Pírata aftur og aftur. Vaxtaverkirnir eru greinilega meiri en búast mátti við.
En hvað strúktur vantar Pírata? Ásta Guðrún segir þetta í Fréttablaðinu:
„Þetta snerist um hversu mikið þingflokksformaður ætti að gera og hvaða hlutverki hann gegnir innan þingflokksins. Við höfðum mismunandi sýn á það. Ég vildi halda í hefðirnar um stöðu þingflokksformanns og ekki vera að finna upp hjólið endalaust en samþingflokksmenn mínir voru einfaldlega ósammála mér varðandi það.“
Nú, snérist deilan þá um hver mátti ráða?
Sigurjón M. Egilsson.