„Ég ætla að ræða um málefni smábátasjómanna. Einn stærsti kostnaðarliðurinn við núverandi kvótakerfi er samþjöppun aflaheimilda sem gert hefur það að verkum að fjölmörg byggðarlög allt í kringum landið hafa misst svo til allar aflaheimildir sínar. Samþjöppun gerir það líka að verkum að fjölmargar minni fiskvinnslur án útgerða hafa lent í vandræðum með að fá hráefni,“ sagði Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Flokki fólksins, á Alþingi í dag.
„Þarna skipta strandveiðarnar gríðarlega miklu máli, ekki bara varðandi það að gríðarlega mörg störf verða til heldur koma hágæðahráefni með strandveiðunum í land sem allir geta boðið í. Núverandi strandveiðikerfi er eins og ljós í myrkrinu þegar við horfum til þess að árangurinn af núverandi kvótakerfi, sem átti að vera grunnurinn að uppbyggingu fiskstofna allt í kringum landið, hefur ekki skilað tilskildum árangri. Núverandi strandveiðikerfi er eina kerfið þar sem enginn hvati er til staðar til að henda fiski eða standa í nokkurs konar svindli. Vandamál strandveiðikerfisins er fyrst og fremst það að stjórnvöld hafa aldrei staðið við loforðið um að tryggja nægar aflaheimildir í kerfið til að klára mætti þessa 48 daga sem strandveiðarnar standa í,“ sagði Ásthildur Lóa.
„Ákvörðun núverandi sjávarútvegsráðherra er því reiðarslag, ekki bara fyrir hinar dreifðu byggðir og ekki heldur bara fyrir strandveiðisjómenn heldur líka fyrir fiskvinnslurnar sem treysta á þetta hráefni. Þess fyrir utan eru jú strandveiðarnar vistvænustu veiðar sem hægt er að finna í heiminum. Þess vegna verða strandveiðarnar að lifa áfram og þess vegna verður að tryggja að nægar aflaheimildir fylgi kerfinu. Svo er það náttúrlega með öllu ólíðandi að afkoma strandveiðisjómanna stjórnist af því hvort aflaheimildir skili sér inn í 5,3 prósent pottinn frá uppsjávarfyrirtækjum og þar með talið þorskveiðum þeirra á fjarlægum miðum víðs fjarri íslenskri efnahagslögsögu, eins og t.d. í Barentshafi,“ sagði hún að lokum.