„Þetta fer mest á stóru skipin,“ sagði Sigurður Viggósson, framkvæmdastjóri Odda á Patreksfirði, í viðtali sem Fréttablaðið birtir í dag, þar sem talað er við hann um komandi makrílveiðar. „Enda eru stóru útgerðirnar með betri hagsmunagæslu og fá því fleira framgengt.“
Í fréttinni sagði Sigurður að margar miðlungsstórar útgerðir fá svo magran makrílkvóta að ekki borgar sig fyrir þær að hefja makrílvinnslu. „Við erum með um 135 tonn, það tekur því ekki einu sinni að starta verkuninni,“ sagði hann. Hann sagði að víðar sé þessu svona farið eins og til dæmis á Tálknafirði og Grundarfirði. Á öllum þessum stöðum gæti myndarleg makrílvinnsla verið mikilvæg innspýting í atvinnulíf staðanna.
Ekki er það til að auðvelda vestfirskum útgerðum að ekki má veiða makríl við Vestfirði því þar eru hrygningarstöðvar mikilvægra stofna. „Það hljómar undarlega í okkar eyrum þegar sömu fræðimennirnir segja að það verði að veiða makrílinn því hann éti öll seiðin og síðan að það megi ekki veiða hann þar sem seiðin eru.“