Stórstígar framfarir í kjarabótum láglaunafólks
Bjarni furðar sig stundum á því hversu hógvær verkalýðshreyfingin og samtök lífeyrisþega eru, þegar kemur að því að meta ýmsar þær umbætur gerðar hafa verið síðustu árin.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar grein í Tímamót Moggans, sem komu út í morgun. Hann skrifar meðal annars:
Ég furða mig stundum á því hversu hógvær verkalýðshreyfingin og samtök lífeyrisþega eru, þegar kemur að því að meta ýmsar þær umbætur gerðar hafa verið síðustu árin. Velferðarnetið hefur verið styrkt svo um munar, kaupmáttur bóta almannatrygginga aukist verulega og þegar litið er til kjarabóta þeirra sem lægst hafa launin hafa orðið stórstígar framfarir, en svo dæmi sé tekið hækkuðu lágmarkslaun á þriggja ára tímabili um rúm 22% samkvæmt samningum milli VR og SA. Áherslan á að bæta kjör þeirra sem minnst hafa hefur verið rík undanfarin ár. Af hálfu ríkisstjórnarinnar má sjá þessar sömu áherslur í ákvörðunum um hækkun atvinnuleysisbóta og hærri barnabótum þannig að þær nýtist þeim tekjulægstu best, en einnig má nefna verkefni frá fyrri árum sem hafa verið sett af stað vegna stöðunnar á húsnæðismarkaði, til að hvetja til nýbygginga, auðvelda fyrstu kaup m.a. með lækkun stimpilgjalda að ógleymdu séreignarsparnaðarúrræðinu, sem nú hefur verið gert varanlegt, þar sem þegar hafa runnið rúmlega 50 milljarðar króna, skattfrjálst, til að létta byrði íbúðareigenda vegna húsnæðiskostnaðar.
„…kaupmáttur bóta almannatrygginga aukist verulega og þegar litið er til kjarabóta þeirra sem lægst hafa launin hafa orðið stórstígar framfarir…“