Stórsigur Þorgerðar Katrínar og Viðreisnar
Gunnar Smári skrifaði:
VIÐREISN fær öll ráðuneytin sem Sjálfstæðisflokkurinn sækist vanalega eftir: Fjármálaráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og öll atvinnuvegaráðuneytin. Í kosningabaráttunni sagðist Viðreisn stefna á hægri hagstjórn og vinstri velferð. Hún hefur nánast alræði varðandi hagstjórnina og atvinnulífið í hinni nýju ríkisstjórn. Hinir flokkarnir skipta á milli sín félagsmálum, heilbrigðismálum, menntun, menningu, samgöngum og umhverfismálum og þurfa að beygja sig undir hægri hagstjórn Viðreisnar, munu læra að ekki er hægt að auka velferð undir hægri hagstjórn sem gengur út á að auka hag fjármagnseigenda og stórfyrirtækja.
Þetta kom vel fram í yfirlýsingum Þorgerðar Katrínar í dag. Skattar verða ekki hækkaðir á fjármagnseigendur eða stórfyrirtæki. Það stendur því ekki til að vinda ofan af stórfelldum skattalækkunum til þessara aðila á undanförnum áratugum þótt Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hafi bent á í kosningabaráttunni að ekki væri hægt að tryggja velferð og innviðauppbyggingu nema innheimta tekjur.
Viðreisn var ekki með nein slík plön önnur en að flagga gamalli tuggu um að sameining stofnana myndi spara peninga. Slíkt hefur aldrei gerst. Stjórnmálafólk sameinar stofnanir til að losa sig við óþekka embættismenn og til að koma sínum mönnum í lykilsstöður í stjórnsýslunni. Viðreisn boðaði líka stórfellda sölu ríkiseigna til að viðhalda lágum sköttum til fjármagnseigenda og stórfyrirtækja. Flokkurinn er nú með fjármálaráðuneytið og getur látið hendur standa fram úr ermum.
Hækkun auðlindagjalda í sjávarútvegi og álagning þeirra í ferðaþjónustu mun ekki einu sinni duga til að stoppa upp í gatið sem Bjarni Benediktsson skyldi eftir sig.
Flokkur fólksins lofaði 450 þúsund krónum á mánuði skatta- og skerðingarlaust. Hann svíkur það loforð. Í stjórnarsáttmálanum er ákvæði um að lífeyrir fylgi launavísitölu en það er ókeypis fyrir hina flokkana þar sem í gildi eru langtímasamningar sem gera ráð fyrir að launahækkanir haldi vart í við verðbólgu. 60 þúsund króna hækkun frítekjumarks ellilífeyrir snertir fáa lítið.
Flokkur fólksins fékk hins vegar í gegn að ríkisstjórnin vill koma því svo við að alþjóðleg vernd verði afturkölluð ef sá sem hennar nýtur fremur alvarleg brot. Ætli þetta myndi ekki eiga við einn eða tvo á ári.
Samfylkingin fær forsætisráðuneytið en auk þess aðeins heilbrigðis-, umhverfis- og háskólaráðuneytið. Þetta eru ekki feitir bitar þótt kratar muni eflaust reyna að sannfæra sig um það. Viðreisn kemur í veg fyrir auknar tekjur og Samfylkingin er auk þess ekki með ráðuneytin til að knýja í gegn aukinn jöfnuð.
Vigtun ráðuneyta eftir mikilvægi er kannski ekki augljós. En ein leið til að raða þessari nýju skipun eftir því hver fór með ráðuneytin síðast. Þá er staðan þessi miðað við ríkisstjórn Katrínar, sem mynduð var eftir síðustu kosningar:
Samfylkingin er Katrín, Willum, Guðlaugur Þór og Áslaug Arna.
Flokkur fólksins er Sigurður Ingi, Guðmundur Ingi og Ásmundur Einar.
Viðreisn er Bjarni Benediktsson, Þórdís Kolbrún, Svandís, Jón Gunnarsson og Lilja Alfreðs.
Reyndar skiptast ráðuneyti Áslaugar Örnu og Lilju upp á milli Viðreisnar og Samfylkingar en við skulum ekki flækja málið. Þið sjáið á því hvar formenn og varaformenn síðustu ríkisstjórnarflokka skipa sér að Viðreisn er að fá mun mikilvægari ráðuneyti en hinir flokkarnir.
Hvers vegna? Samfylkingin og Flokkur fólksins þurftu að kaupa Viðreisn til fylgilags vegna þess að hún hafði aðra kosti til myndunar ríkisstjórnar. Og það er þetta ójafnvægi sem mun kalla fram átök á næstu misserum.
Fyrirsögnin er Miðjunnar.