Gunnar Smári skrifar:
Ég vona að ég sé ekki að skemma partýið, en það er engin hætta á virkjunum á hálendinu. Það er enginn orkuskortur á Íslandi heldur þvert á móti er of mikið af orku. Bakki er búinn að loka og öruggt að alla vega eitt álver mun loka á næstu misserum. Í stað þess að leggja í langlokuumræðu við Miðflokkinn um þjóðgarð á miðhálendinu ætti auðlindaráðherra að hefja umræðu við samfélagið um hvað við eigum að gera við alla þessa umframorku.
Stóriðjutímabilið er búið á Íslandi. Fyrir rúmri hálfri öld gátu stjórnvöld samið við alþjóðlega auðhringi um orkusölu og byggt upp Landsvirkjun á þeim samningi auk þess sem til urðu hundruð vellaunaðra starfa í íslenskum samanburði. Næstu stóriðjuverkefni voru veikari og þegar kom að Kárahnjúkum var stórkostlegum náttúrugæðum fórnað ofan á skattaívilnanir til fyrirtækis sem lítið skilar inn í samfélagið. Það sem á eftir fylgdi var síðan æ verri samningar þar sem æ veikari og vafasamari fyrirtækjum var borgað æ meira fyrir að skoða það að reisa hér æ minni og veikar fjármagnaðar verksmiðjur eða gagnaver.