Í dag er það Joe Biden og aftur er það Ríkisútvarpið. Að venju tekst Davíð misvel upp í Reykjavíkurbréfi morgundagsins. Hann nær að gera góðlátlegt grín af tilvonandi forsetaefni Demókrata.
„Síðustu vikur hefur Biden eiginlega horfið Bandaríkjamönnum á meðan Trump talar á hverjum degi til þjóðarinnar úr Hvíta húsinu. Þetta var orðið mjög óþægilegt. Flokkurinn hafði ákveðið að fela og hvíla sinn gamla frambjóðanda. Og það þyrfti að gera á meðan heimsfaraldur þar sem dauðinn var ekki ókunnur fylginautur væri tekinn að herja á Bandaríkin,“ skrifar ritstjórinn við Hádegismóa.
Næst kemur besti kaflinn:
„Í prófkjörsbaráttunni hafði Biden iðulega virst úti á þekju gagnvart kjósendum og fréttafólki. Hann flaskaði nokkrum sinnum á því í hvaða fylki hann var staddur. Hann fullyrti yfir fjölmenni að hann hefði persónulega farið til Suður-Afríku og frelsað Nelson Mandela úr fangelsi! Fáum dögum síðar skálmaði hann hressilegur í ræðustólinn og sagði: „Þið þekkið mig. Ég er Joe Biden og er að berjast fyrir því að verða öldungadeildarþingmaður nú í nóvember.“ Og fyrir stærsta prófkjörsdaginn sagði hann: „Stóri þriðjudagurinn verður nú á fimmtudag.“
Og svo þessi staðreynd: „Maður sem hóstar og mismælir sig er búinn að vera.“
Ríkisútvarpið á stóran hluta í hugsunargangi Davíðs: „En þeir sem bara lesa hans texta og fylgjast ekki með öðrum erlendum fréttum en þeim sem berast frá furðufréttastofunni sem hann deilir launaskrá með geta ekki skilið hvernig í ósköpunum hann gat komist að þessari niðurstöðu.“