Gunnar Smári skrifar: Með fullri virðingu fyrir heimsku forsetans og hversu hættulegur hann er, skaðvaldur mikill og friðarspillir, þá hef ég ekki nokkra trú á að samfélagið skáni við það að auðkýfingarnir sem eiga Facebook og Twitter taki að sér að ritskoða kjörna fulltrúa. Eða nokkurn yfir höfuð. Í þessum heimi, þar sem ýmsir armar auðvaldsins berjast um völdin og almenningur horfir á algjörlega valdalaus, raddlaus og án tillöguréttar, skiptir ekki mestu hvaða tegund fasisma í höndum hvaða arms auðvaldsins nær yfirhöndinni. Hið rétta væri að þjóðnýta þennan vettvang og setja um hann almennar reglur á lýðræðislegum vettvangi og fylgja þeim eftir af almannavaldinu. Og samkvæmt lýðræðishefð okkar heimshluta er hver maður frjáls skoðana sinna og tjáningar, en verður að standa skil á henni fyrir dómstólum ef einhver telur sér ógnað af ummælunum.
Sá sem fagnar því að Jack Dorsey og Mark Zuckerberg ritskoði forseta Bandaríkjanna muni ekki gleðjast lengi. Með því að láta þessa menn komast upp með þetta er Bandaríkjaþing að gefa þessum auðkýfingum gríðarleg völd, í raun setja þá yfir alla almenna umræðu í samfélaginu. Og áður en þeir þagga niður í Bandarikjaforseta og enn frekar á eftir munu þeir þagga niður í öllum sem ekki flytja þann boðskap er hinum ofsa ríku að skapi.