Stjórnmál
„Frá upphafi afskipta minna af pólitík hef ég verið sá leiðtogi á Alþingi Íslendinga sem ævinlega hefur talað fyrir því að verja landamæri okkar fyrir óheftu flæði hælisleitenda (e. open borders). Ég hef ekki einungis talað fyrir daufum eyrum heldur fengið á mig holskeflu fúkyrða frá þeim sem eiga alla mína samúð fyrir grunnhyggni og afneitun á þeim vanda sem við nú sitjum uppi með,“ skrifar Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og birt er í Mogga dagsins.
„Það liggur fyrir að með breytingum á útlendingalöggjöfinni sem samþykkt var í júní 2016 og tók gildi 1. janúar 2017 hafði allur undirbúningur löggjafarinnar verið undir stjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins, sem síðan var hrakinn frá völdum eins og frægt er orðið. Arftaki hans Sigurður Ingi Jóhannsson kláraði síðan málið með þverpólitískum stuðningi allra nema þeirra sem sátu hjá og vildu ganga mun lengra m.t.t. að við yrðum langbest í heimi,“ skrifar Inga.
Áfram skrifar Inga:
„Þær róttæku breytingar sem þarna voru gerðar á útlendingalöggjöfinni hafa leitt okkur í það ófremdarástand sem við búum við í dag. Þarna lögfesti Ísland ýmsar sérreglur sem gerði landið að einum eftirsóknarverðasta stað fyrir hælisleitendur sem völ er á í Evrópu. Ég þarf líklega ekki að nefna stórglæpamennina sem við sitjum uppi með án þess að geta losað okkur við þá af landi brott. Við þekkjum þá sögu öll.
Því var það að um miðjan júní sl. mælti ég fyrir breytingartillögu Flokks fólksins við útlendingalöggjöf dómsmálaráðherra Guðrúnar Hafsteinsdóttur um að heimilt væri að senda útlendinga af landi brott þrátt fyrir að þeir hefðu hlotið alþjóðlega vernd hér á landi, enda hefðu þeir ítrekað brotið af sér. Ég hefði haldið að ráðherrann tæki breytingartillögu minni fagnandi enda hafði hún á opinberum vettvangi ítrekað tjáð sig um mikilvægi þess að fá heimild inn í löggjöfina sem heimilaði að senda erlenda brotamenn úr landi þrátt fyrir að hafa hér alþjóðlega vernd. Það þarf ekki að orðlengja frekar um það, en dómsmálaráðherrann felldi tillöguna ásamt Sjálfstæðisflokknum og ríkisstjórninni í heild sinni.“
Inga skrifar áfram með sína hörðu gagnrýni:
„Aum voru rökin þegar ráðherrann brá fæti fyrir sjálfa sig og afneitaði því sem hún hefur ítrekað talið nauðsynlegt að næði fram að ganga. Það kom fram í atkvæðaskýringu með breytingartillögunni að hana væri ekki hægt að samþykkja vegna „lagatæknilegra annmarka“. Það voru engir lagatæknilegir annmarkar á tillögunni enda byggðist hún á eldri útlendingalöggjöf. Hins vegar ef hún hefði náð fram að ganga, þá væri landsþekkti glæpamaðurinn frá Sýrlandi ekki á leið í átta ára fangelsi í boði íslenskra skattborgara, hann væri farinn af landi brott.“